138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

þingsköp Alþingis.

539. mál
[16:14]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á þingsköpum. Frumvarpið felur í sér að þingmaður geti meðan hann gegnir ráðherraembætti ákveðið að sitja á Alþingi einungis samkvæmt embættisstöðu sinni sem ráðherra, eins og getur um í 51. gr. stjórnarskrárinnar, og að varamaður hans taki sæti á meðan.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur nokkrum sinnum flutt frumvarp um breytingu á stjórnarskránni sem kveður á um að það verði sett inn í stjórnarskrá að þingmaður sem tekur að sér ráðherraembætti láti af þingstörfum á meðan hann gegnir embætti ráðherra. Eðli málsins samkvæmt getur slíkt þó ekki orðið á þessu kjörtímabili þar sem breyta þarf stjórnarskránni til að svo geti orðið.

Þetta frumvarp gerir hins vegar ráð fyrir því að þingmaður sem verður ráðherra geti, ef hann kýs svo sjálfur, sagt af sér þingmennsku og komið aftur inn á sama kjörtímabili ef einhverjar breytingar verða á hans högum, hvort sem ríkisstjórnin fer frá eða hann eða hún lætur af ráðherraembætti, og horfið aftur til þingmannsstarfa.

Á Íslandi er auðvitað þrískipting valdsins en á hinn bóginn eru skilin á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins mjög óskýr að mínu mati, að því leyti að hér í þingsal sitja ráðherrar með full þingréttindi. Einmitt þetta vandamál hefur komið fram í umræðu um störf þingsins á síðustu dögum og sérstaklega hefur verið nefnt að tilkynningar um fjárveitingar koma frá ríkisstjórninni sem hún hefur í raun ekki leyfi til að veita vegna þess að það er Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið. Ég vil mjög gjarnan taka undir gagnrýni sem hefur komið fram um þann skort sem oft er á samráði við þingið í þessum efnum.

Prófessor Sigurður Líndal hefur stundum kallað ríkisstjórnina nokkurs konar efri deild Alþingis sem samþykki frumvörp sem hún síðar sendi þinginu til meðferðar. Við heyrum gjarnan í fréttum að ríkisstjórnin hafi samþykkt hitt og þetta og það er ekkert nýtt með þessa ríkisstjórn heldur hefur þetta verið svona um áraraðir. Samt sem áður hafa stjórnarflokkarnir ekki einu sinni séð þessi frumvörp sem ríkisstjórnin samþykkir. Þeir hafa væntanlega í flestum tilfellum heyrt um að til standi að gera hitt og þetta og leggja hitt og þetta fram. Hins vegar hefur það út af fyrir sig enga þýðingu þó að ríkisstjórnin samþykki einhver frumvörp á sínum fundum því það er Alþingi Íslendinga sem samþykkir lagafrumvörp. Skilin þarna á milli þurfa að vera mjög skýr. Ég tel að með því að að skilið sé á milli, að sama persónan fari ekki með löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið, verði strax betri vinnubrögð, ekki bara á ríkisstjórnarheimilinu heldur líka hjá okkur í þinginu og fólk muni vanda betur meðferð allra mála.

Ég sé svo sem fyrir mér að einhverjir gætu haldið að þetta væri sérstök ádeila á ríkisstjórnina sem situr hér nú og ég styð. Það er alls ekki svo. Ég vil benda á að í þeim umræðum sem voru hér í dag um störf þingsins að einmitt þetta hlutverk sem ríkisstjórnin hefur tekið sér hefur gilt í árabil. Þeir sem gagnrýna það mjög núna, t.d. sumir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa um árabil haft tækifæri til þess að gera eitthvað til að breyta þessu.

Við erum 19 þingmenn úr öllum flokkum sem leggjum þetta fram og ég vona að þetta fái skjóta meðferð í þinginu. Þetta mál mun fara til allsherjarnefndar. Auðvitað verður kostnaðarauki af þessu vegna þess að varaþingmenn tækju þá sæti og það þyrfti að greiða þeim full laun og allan þann kostnað sem af því hlýst. Ég tel hins vegar að sá kostnaður í krónum yrði lítill hjá þeirri vandvirkni sem ég held að við fengjum í staðinn. Ég legg þetta því fram og æski þess að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.