138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

þingsköp Alþingis.

539. mál
[16:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis gengur út á að þingmaður geti ákveðið þegar hann gegnir ráðherraembætti að sitja einungis Alþingi sem ráðherra en ekki sem þingmaður. Þetta er í sjálfu sér mild leið til að fara fram hjá því að þurfa að breyta stjórnarskránni. Ég hefði viljað ganga lengra og tel að menn ættu að flytja breytingu á stjórnarskránni og hafa hana tilbúna eins og reyndar hefur verið gert og ganga jafnvel lengra því að við gætum í reynd fækkað þingmönnunum um 12, ef ráðherrar hefðu ekki atkvæðisrétt, niður í 41, sem er afskaplega góð tala, frumtala. Við það mundi að sjálfsögðu ýmislegt breytast og þingmenn hefðu væntanlega miklu meira vægi sem 41 heldur en 63 og mundu enn síður ganga erinda ríkisvaldsins.

Það er líka eitt annað sem menn hafa ekki rætt. Það er plássið í salnum. Ef allir ráðherrar mundu nú taka sig til og kalla inn varamenn þá mundi bætast hérna við frá því sem staðan er 10, en venjulega 12. Ég sé ekki hvernig í ósköpunum þeir ættu að komast fyrir. Það hefur verið kostur þessa salar að hann hefur takmarkað „verðbólgu“ fjölda þingmanna, það er kosturinn við að hafa hann svona lítinn. Þess vegna er ég eindregið fylgjandi því að byggja ekki nýjan sal.

Það sem þyrfti að gera samhliða svona breytingum væri að styrkja nefndasviðið vegna þess að ef þingmönnum fækkar og ráðherrar fara út þá þarf að vinna meira á þinginu.

Ég er fylgjandi þessu frumvarpi vegna þess að mér finnst þetta vera sniðug og mild leið til þess að koma þessari breytingu á svona hægt og rólega án þess að þurfa að breyta stjórnarskránni. Langtímamarkmiðið ætti að vera að aðskilja framkvæmdarvald og löggjafarvald þannig að sami maðurinn sitji ekki báðum megin við borðið, sem framkvæmdarvald og löggjafarvald. Við höfum því miður séð hvað Alþingi er allt of hallt undir framkvæmdarvaldið.