138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

hvatningarverkefni til að efla innlenda framleiðslu.

528. mál
[16:36]
Horfa

Flm. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um frumkvæði að almennu hvatningarverkefni til að efla innlenda framleiðslu og fjölga störfum. Flutningsmenn auk mín eru framsóknarþingmennirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Eygló Harðardóttir og Guðmundur Steingrímsson.

Ályktunin hljóðar þannig að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hafa frumkvæði að samstarfi við aðila vinnumarkaðarins á grundvelli stöðugleikasáttmálans að almennu hvatningarverkefni til að efla innlenda framleiðslu og sölu á innlendum afurðum og þar með fjölga störfum. Lagt er til að verkefnið verði kallað „Íslenskt, já takk“, hefjist sumarið 2010 og standi út árið hið minnsta.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni stendur að á núverandi erfiðleikatímum með vaxandi atvinnuleysi þar sem horfur eru því miður á að það fari jafnvel vaxandi út allt þetta ár og fram á næsta áður en við sjáum fyrir endann á því ef marka má spá Seðlabanka Íslands er mikil þörf á að hvetja landsmenn til að kaupa íslenskar vörur og þar með efla innlenda framleiðslu og fjölga störfum. Slíka hvatningu höfum við áður sett í gang og hefur hún skilað miklu til eflingar innlendri framleiðslu. Nú þegar við þurfum á öllum okkar gjaldeyri að halda til að standa skil á erlendum skuldum og innflutningi á nauðþurftum sem við getum ekki framleitt innan lands er mikilsvert að auka hlutdeild innlendrar framleiðslu sem mest. Það sparar gjaldeyri, fjölgar störfum í framleiðslu og styður þannig margfalt við að koma hjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik. Með því að efla innlenda framleiðslu og hvetja landsmenn til kaupa íslenskt styðjum við marga þætti þar til viðbótar, svo sem gjaldeyrissparnað og fjölgun starfa, aukum og breikkum skattstofna og bætum öryggisstaðla með því að vera sjálfbjarga á enn fleiri vegu en við erum nú. Má til að mynda nefna fæðuöryggi þjóðarinnar.

Verkefnisheitið „Íslenskt, já takk“ hefur áður verið notað til að efla innlenda framleiðslu og sölu á innlendum vörum með góðum árangri. Árið 1996 stóð ríkisvaldið ásamt aðilum vinnumarkaðarins að verkefni á landsvísu sem vakti mikla athygli. Sjálfur var ég þá nýlega kominn í sveitarstjórnarmál og var formaður ferða- og atvinnumálanefndar í mínu sveitarfélagi þar sem verkefnið hófst og komu þáverandi iðnaðarráðherra og forseti lýðveldisins að málinu. Þetta vakti athygli á þeim stöðum á Suðurlandi sem voru kynntir á þessum degi sem og síðan í framhaldinu á iðnaðarfyrirtækjunum um land allt og jók umsvif innlendrar framleiðslu og var kannski einn liður í því að fjölga hér störfum sem menn stóðu markvisst að á þeim tíma. Við framsóknarmenn vildum til að mynda búa til ein 15.000 eða 12.000 störf. Ég held að niðurstaðan hafi orðið sú að búin hafi verið til 15.000 eða 18.000 störf og ekki veitir af nú þegar talið er að við höfum misst um 28.000 störf í hruninu.

Á liðnum missirum hafa Samtök iðnaðarins staðið fyrir minni háttar auglýsingaherferðum undir sama heiti, þ.e. „Íslenskt, já takk“. Ég held að það sé því sjálfsagt mál að nýta hið jákvæða viðhorf sem „Íslenskt, já takk“ hefur meðal landsmanna til að vera vörumerki þessa hvatningarverkefnis.

Það er afar mikilvægt á hverjum tíma og ekki síst á viðsjárverðum efnahagstímum eins og nú að hvetja til kaupa á innlendri framleiðslu. Öll þekkjum við hvernig til að mynda Frakkar, Þjóðverjar og Danir, svo að einhverjar Evrópuþjóðir séu nefndar, velja og verja eigin framleiðslu með ýmsum hætti. Má nefna fánamerkingar og sérmerkingar aðrar eins og vöruheiti sem ekki má nota á aðrar sambærilegar vörur í heiminum.

Við ræddum hér fyrr í dag um frumvarp til breytinga á fánalögum þar sem heimilað er að nýta fánann einmitt til vörumerkinga eins og Bændasamtökin hafa hvatt til og unnið að í þó nokkur ár. Ég held að þetta sé ákaflega mikilvægt og við getum líka sagt að úr því að þessi lönd sem ég nefndi, sem eru nú aðilar að Evrópusambandinu, geta gert þetta innan Evrópusambandsstefnunnar held ég að okkur sé heimilt að merkja okkar vörur þrátt fyrir EES-samninga og það sé eiginlega skylda okkar.

Í kreppunni eða við upphafi efnahagshrunsins vörðu þjóðir Evrópu miklum fjármunum í að verja eigin framleiðslu, til að mynda í bílaiðnaði o.s.frv.

Samstarf ríkisvaldsins og allra aðila á vinnumarkaði væri eftirtektarvert átak sem án nokkurs vafa skilaði miklu til eflingar innlendri framleiðslu. Með þingsályktun þessari er gerð tillaga um að ríkisstjórninni allri verði falið að hafa frumkvæði að samstarfi við alla aðila á vinnumarkaði til að koma verkefninu á laggirnar. Sérstaklega er þó rétt að nefna forsætisráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Ráðherrar þessara ráðuneyta ættu ásamt fjármálaráðherra að mynda starfshóp sem stýrði undirbúningsvinnunni eða samstarfinu við aðila vinnumarkaðarins. Lagt er til að vinnunni verði hraðað þannig að átakið geti hafist strax nú sumarið 2010 og staðið yfir í hálft ár hið minnsta eða eins lengi og samstarfsaðilarnir telja æskilegt.

Við þetta er að bæta þar sem við höfum verið að velta mikið fyrir okkur þeirri mynt sem við búum við og hvernig krónan hefur hjálpað til við að efla einmitt innlenda framleiðslu og útflutning að þetta er ein leið til þess að ýta enn frekar undir það. Markmiðið sem við ættum kannski að setja okkur í framtíðinni er að vera efnahagslega sjálfstæð með því að flytja út fleiri vörur. Við erum auðvitað fyrst og fremst hráefnisútflutningsland nú en með því að efla innlenda framleiðslu á ýmsum sviðum, jafnvel sviðum þar sem við þurfum að flytja inn hráefnið en gætum síðan flutt það út aftur eftir að hafa aukið virðisauka þess með starfsemi hér á landi, þá mundum við auðvitað efla hér fjölbreytileikann í atvinnustarfsemi, fjölga störfum og þá mundum við ekki síður geta haldið krónunni sterkari en nú. Við ættum kannski að horfa til annarra lítilla ríkja sem búa við hliðina á stærri ríkjum eins og til Taívans sem hefur, ef ég fer rétt með, í mjög langan tíma, kannski 40 ár, haft jákvæðan jöfnuð á sínum viðskiptum og þannig einmitt verið efnahagslega sjálfstætt og geta staðið við hlið risaveldisins Kína. Það er kannski eitthvað sem við þurfum að horfa til, að hafa hér stefnu um langa framtíð, að við séum útflutningsþjóð sem flytur út vörur og þjónustu fyrir hærri fjárhæð en við flytjum inn til lengri tíma.

Að lokum legg ég til, frú forseti, að þessari þingsályktun verði vísað til allsherjarnefndar til frekari umfjöllunar.