138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[15:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Já, ég heyri að það liggur vel á sjálfstæðismönnum í dag. Það er nú gott, 10. maí á 70 ára afmæli innrásar Breta og eins árs afmæli ríkisstjórnarinnar.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var sjávarútvegsráðherra. Var hann ekki einmitt sjávarútvegsráðherra þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytin voru sameinuð? Lítur hv. þingmaður þá svo á að hann hafi verið að leggja annaðhvort ráðuneyti niður? Hvers konar tal er þetta? (EKG: Þið voruð á móti þessu.) Við vorum á móti því hvernig að því var staðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar þá, enda var það hroðvirknislega unnið. Nú er ætlunin að gera þetta í anda vandaðrar stjórnsýslu. (EKG: … stjórnsýslu.) Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu eru núna um 50 starfsmenn en í iðnaðarráðuneytinu 18. Dettur einhverjum í hug að verið sé að leggja sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið niður þó að miklu minna ráðuneyti bættist þar við og væntanlega í því húsi? Ef þetta er sett í sitt rétta samhengi er ekki ástæða til að vera uppi með hræðsluáróður af þessu tagi.

Hitt er alveg rétt að það skiptir mjög miklu máli hvernig tekst að vinna þetta og fá menn til að vera jákvæða í þeim breytingum sem þarna eru þá í farvatninu. (Forseti hringir.) Það er eftir miklu að slægjast í því að ná góðu andrúmslofti með breytingum af þessu tagi, líka þverpólitískt, ef þær kynnu að vera í boði. (REÁ: Heyrirðu það, Jón Bjarnason?)