138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

launakjör seðlabankastjóra.

[15:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég svaraði því sem að mér snýr í þessu máli og varð þar með við beiðni hv. þingmanns en hann ræður ekki svörum annarra manna. Hv. þingmaður hlýtur að vera orðinn það þingvanur að hann veit að menn ráða orðum sínum sjálfir hér í ræðustóli og bera ábyrgð á þeim.

Svo að það sé líka á hreinu er ég í frekar góðu skapi. Vorið er komið (Gripið fram í.) og ég lít heldur bjartsýnn fram á veginn og tilveruna þó að það sé við ýmsar brekkurnar að kljást satt best að segja. Mér sýnist nokkuð ljóst að hér er mikill orðaleikur í gangi. Auðvitað hefur enginn lofað seðlabankastjóra mörg hundruð þúsund kr. launahækkun (Gripið fram í.) einfaldlega vegna þess að laun seðlabankastjóra lækka umtalsvert (Gripið fram í: Einmitt.) frá því sem var. (Gripið fram í.) Seðlabankastjórarnir sem störfuðu á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins voru á þokkalegustu launum en það má deila um árangurinn af þeirra verkum.