138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

viðbrögð iðnaðarráðherra við yfirvofandi bankakreppu.

[15:22]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hefur ýmislegt komið fram í dagsljósið, þar á meðal fundargerðir frá þingflokksfundum Samfylkingarinnar frá 11. febrúar og 18. febrúar 2008 þar sem alvarlegt ástand í bankamálum er reifað eftir fund oddvita ríkisstjórnarinnar með stjórn Seðlabankans þann 7. febrúar.

Með leyfi forseta, vil ég grípa hér ofan í fyrri fundargerðina. Þar er texti merktur ISG, sem ég held að hljóti að standi fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur:

„Staðan á fjármálamörkuðum er alvarleg vegna ástandsins á alþjóðlegum mörkuðum og skuldsetningar íslensku bankanna. Við þurfum að senda út þau skilaboð að við getum ráðið við vandann. Bankarnir munu standa af sér a.m.k. næstu níu mánuði en spurningin er hvað ríkið getur gert hafi markaðir ekki opnast þá. Því þarf að svara. Moody's mat stöðu ríkisins neikvæða og lausnin á því gæti verið aukið aðhald og að Íbúðalánasjóður starfi í samræmi við stefnu Seðlabankans. Nýtt mat er væntanlegt þar sem lánshæfismat ríkis og banka lækkar enn frekar.“

Nú geri ég ráð fyrir að hæstv. iðnaðarráðherra, þá hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, hafi setið þessa fundi. Mig langar að spyrja hana hvernig hún brást við þessum tíðindum.