138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

notkun rannsóknarskýrslu Alþingis í skólastarfi.

[15:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér hefur aðeins verið drepið á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og er ljóst að hún kallar á margvíslegt endurmat í okkar samfélagi. Eitt af því sem gjarnan er spurt um í umræðu um skýrslu rannsóknarnefndarinnar er hvaða lærdóm við getum dregið af henni til framtíðar.

Að mínu mati eru skólakerfið og uppeldisstofnanir ekki undanskilin í því efni. Ég tel mikilvægt að skólakerfið allt, í skólum og uppeldisstofnunum, vinni með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í raun á öllum skólastigum og reyni að draga lærdóm af því sem þar kemur fram. Mig langar að inna hæstv. menntamálaráðherra eftir því hvort einhver vinna hafi nú þegar farið fram innan menntamálaráðuneytisins í því efni að skoða rannsóknarskýrsluna og athugað hvernig hún getur nýst í því starfi sem heyrir undir það ráðuneyti, hvernig ráðherrann sér fyrir sér skólakerfið takast á við skýrsluna, á við efnahagshrunið, og kannski ekki síst siðferðisbindi rannsóknarskýrslunnar. Mig langaði að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hún telji koma til álita að kennsla verði innleidd í skólakerfið í ríkari mæli en er í dag í hlutum eins og siðfræði, lýðræðisvitund eða heimspeki á fyrstu skólastigum, og jafnvel hvort unnt sé að mati ráðherrans að vinna að kennsluefni fyrir mismunandi skólastig úr þeim efnivið sem skýrslan gefur.