138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

notkun rannsóknarskýrslu Alþingis í skólastarfi.

[15:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um viðbrögð skólakerfisins við rannsóknarskýrslunni. Er því til að svara að við höfum raunar allt sl. ár verið að vinna að nýjum námskrám sem byggja á þeim grunnstoðum þar sem er tekið sérstaklega til læsis í víðum skilningi þess orðs, menntun til sjálfbærni, menntun til skapandi hugsunar og svo lýðræðis- og jafnréttisfræðslu, þannig að segja má að sú vinna hafi í raun verið komin af stað strax í vor. Ég held að það sé full ástæða til að taka skilaboð skýrslunnar alvarlega og velta því fyrir sér hvort við ætlum að fylgja til að mynda fordæmi Breta sem hafa farið þá leið að hafa ákveðna þegnskaparmenntun sem skyldu á bæði grunn- og framhaldsskólastigi. Það rímar mjög vel við þessar stoðir þar sem er farið yfir grunnatriði gagnrýninnar hugsunar, siðfræði og heimspekilegrar hugsunar. Þetta eru í raun skilaboð ekki bara úr rannsóknarskýrslunni heldur líka frá þjóðfundi um menntamál sem grasrótarsamtök stóðu fyrir. Í kjölfar stóra þjóðfundarins í nóvember var staðið fyrir sérstökum þjóðfundi um mennta- og skólamál þar sem sérstaklega var kallað eftir aukinni gagnrýnni hugsun og rökfræði inn í skólakerfið.

Nú hafa skólar ákveðið sjálfdæmi en ég hef mikið velt því fyrir mér hvort hægt væri að setja þetta inn sem skyldunám bæði á grunn- og framhaldsskólastigi í samráði þá við skólastjórnendur. Þeir hafa í raun tekið því mjög vel, a.m.k. þeir sem ég hef rætt við nú þegar, og ég mun ræða þetta á næsta skólameistarafundi við framhaldsskólameistara. Mér finnst líka ástæða til að ræða samskipti nemendafélaga í framhaldsskólum við styrkveitendur en skýrslan tekur fram að nemendafélög fái jafnvel háa styrki gegn ákveðinni sölumennsku inni í skólunum, sem er auðvitað eitthvað sem er eðlilegt að skólarnir velti fyrir sér og setji sínar reglur um. Síðan höfum við rætt skýrsluna á vettvangi okkar með háskólarektorum og hvernig háskólasamfélagið geti brugðist við af því að það er tekið til sérstakrar (Forseti hringir.) umfjöllunar í viðbrögðum við skýrslunni.