138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða það hvort stjórnarþingmenn hafi þann rétt að spyrja sína ráðherra. Þeir hafa það svo sannarlega. Hins vegar vil ég koma hingað og benda á það sem við höfum ítrekað rætt, að þessir fyrirspurnatímar eru of fáir og of stuttir. Ég held að við ættum að taka okkur saman núna, þingmenn, og breyta þingsköpunum, fjölga fyrirspurnatímum vegna þess að það er mjög mikilvægt að allir komist að til að spyrja ráðherra, hvort sem það eru stjórnarþingmenn eða stjórnarandstöðuþingmenn.

Næsti óundirbúni fyrirspurnatími er ekki fyrr en næsta mánudag, eftir viku, og við vitum að það er margt sem gerist á einni viku. Það er ekki fyrirspurnatími á miðvikudaginn eftir því sem ég best veit vegna þess að það er búið að breyta miðvikudeginum í nefndadag, sem er líka ákveðið umhugsunarefni.

Ég vil rétt benda á í lokin, frú forseti, að annað tæki sem við þingmenn höfum er að leggja fram skriflegar og munnlegar fyrirspurnir til ráðherra. (Forseti hringir.) Ég bið hæstv. forseta, sem ég hef reyndar gert áður, að hvetja hæstv. ráðherra sem eiga skriflegum fyrirspurnum ósvarað að svara þeim vegna þess að (Forseti hringir.) ég er t.d. í þeirri stöðu að ég hef lagt fram tvær fyrirspurnir sem hafa beðið eftir svari í sex vikur, að ég held.