138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að við þingflokksformenn forgangsröðum eða mælumst til hvernig röðin á ræðumönnum okkar er. En það er líka að skapast sú venja að formenn flokkanna tali fyrst í þessum fyrirspurnatímum.

Það er einfaldlega þannig að forsetinn stjórnar þingfundunum og það er að sjálfsögðu forsetinn sem ræður hvaða umræður fara fram eða hverju er hleypt að. Það hefur gerst að ákveðnir flokkar hafa fengið jafnvel þrjár fyrirspurnir meðan aðrir hafa fengið eina og slíkt. Ég vil því beina því til hæstv. forseta að skoða efni fyrirspurnanna sem koma fram ekki síður en í hvaða röð þær koma inn því að sú fyrirspurn sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson var með áðan sneri að náttúruhamförum. Svo kunna menn að spyrja hvort einhver sú umræða sem hér hefur farið fram í dag skipti meira máli en umræða um þær miklu hamfarir (Forseti hringir.) sem ríða yfir á Íslandi í dag.

Frú forseti. Það er vitanlega forsetinn sem stjórnar og ræður eins og hæstv. forseti hefur oft og tíðum bent okkur þingmönnum á.