138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þessi fundur hérna hefur þróast afskaplega vel og er um margt merkilegur. Hér er komin krafa frá þingmönnum, held ég úr öllum flokkum, þar með talið hæstv. ráðherrum, um að þessum fundum verði fjölgað og þeir lengdir. Ég held að okkur sé ekki til setunnar boðið, við þurfum að ganga í að breyta þessu. Það er bara einn hv. þingmaður sem gerði lítið úr þessu sem allir aðrir þingmenn eru sammála um, þ.e. að það sé mikilvægt að við veitum framkvæmdarvaldinu aðhald og fáum skýr svör. Ég lít svo á að hv. þm. Róbert Marshall hafi bara verið í einstaklega góðu skapi út af vorinu og verið að gera að gamni sínu því að við skulum ekki setja ofan í við þá þingmenn sem sýna hér dugnað við að fá upplýsingar sem varða alla þjóðina.

En aðalatriðið, virðulegi forseti, er þetta: Hér er komin krafa frá öllum þingmönnum og ráðherrum (Forseti hringir.) um að við lengjum þennan þátt og gerum þetta betur, og við skulum ganga í það verkefni.