138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

skattar og fjárlagagerð 2011.

[15:52]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Fram undan er án efa ein alsnúnasta fjárlagagerð sem við Íslendingar höfum staðið frammi fyrir. Halli ríkissjóðs er um 100 milljarðar kr. þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi gripið til stórfelldra skattahækkana fyrir árið 2010 og þrátt fyrir þær aðhaldsaðgerðir sem ríkisstjórnin greip til sem eru reyndar að langmestu leyti einskiptisaðgerðir. Þessar skattahækkanir hafa komið sér afar illa fyrir heimili og fyrirtæki enda er um að ræða verulegar hækkanir á tekjuskatti einstaklinga, auk þess sem tryggingagjaldið er nú komið hátt í 9% fyrir utan þær stórhækkuðu álögur sem eru t.d. á bensín og hafa þær hliðarafleiðingar að hækka vísitölu sem skilar sér í enn hærri greiðslubyrði á fjölskyldurnar í landinu. Miðað við samkomulagið við AGS og stöðugleikasáttmálann eða það sem eftir er af honum sýnist mér fullvíst að ófært sé fyrir ríkisstjórnina að hækka þessa skattstofna frekar og ég er eindregið þeirrar skoðunar að fjölskyldurnar geti ekki staðið undir frekari álögum af hálfu hins opinbera í formi skattahækkana.

Reyndar væri fróðlegt ef hæstv. fjármálaráðherra gæti upplýst um það hvort hækkun tekjuskatts hafi skilað því sem áætlað var, t.d. hvort hann hafi í raun og veru skilað þeim tekjum sem ráð var fyrir gert, að ég tali nú ekki um að hækkun skatta á krepputímum hlýtur að vera arfaröng hagfræði þegar meginverkefnið er að auka slátt í hagkerfinu. Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar gera ekkert annað en að dýpka kreppuna.

Það er bráðnauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að grípa til aðgerða til að auka umsvifin í þjóðfélaginu. Aðilar vinnumarkaðarins, hvort sem litið er til SA eða ASÍ, eru sammála um að meginverkefni þessarar ríkisstjórnar eigi að vera akkúrat það. Raunar kemur það áreiðanlega mörgum fylgismönnum þessarar ríkisstjórnar á óvart hversu harkalega ASÍ hefur gagnrýnt athafnaleysi hennar þegar litið er til þess að auka sláttinn í hagkerfinu. Það sýnir hins vegar þann ótta sem hefur gripið um sig hjá launþegahreyfingunni, enda hafa forustumenn þeirrar hreyfingar puttann á púlsinum og skynja áreiðanlega vel þá hræðslu sem hefur gripið um sig hjá umbjóðendum þeirra.

Virðulegur forseti. Verkefnið er í sjálfu sér einfalt. Við stöndum frammi fyrir 100 milljarða halla og tvær leiðir eru færar til að mæta honum. Annars vegar er nauðsynlegt að grípa til verulegra aðhaldsaðgerða og hins vegar þarf að auka tekjur ríkissjóðs.

Tímans vegna er ekki efni til að fara í umræður um aðhaldsaðgerðir og mögulegan niðurskurð, það er alveg sérstök umræða. Hér er fókusinn á tekjuhliðina. Til að mæta þessum halla þarf að fara báðar leiðir. Í dag er 10. maí, og 1. október þarf fjárlagafrumvarpið að vera klárt. Ég geri ráð fyrir að undirbúningur sé kominn mjög langt á veg í fjármálaráðuneytinu og nú þegar hafi verið ákveðið hvernig mæta eigi þessum halla. Reyndar vantar enn þá nýja þjóðhagsspá svo það er úr nokkuð vöndu að ráða í þessari umræðu. Ég ætla að nota þetta tækifæri og lýsa eftir þjóðhagsspánni sem átti að birta í apríl sl.

Allt að einu, ef við gefum okkur það að mæta eigi fjárlagahallanum með sama hætti og lagt var upp með í stöðugleikasáttmálanum, þarf ríkisstjórnin að skera niður um 55 milljarða nú í haust. Ef ríkisstjórnin er enn að velta fyrir sér hækkun skatta er spurningin hvar eigi að taka þær skatttekjur. Ekki getur það verið meiningin að herja frekar á hinn almenna launamann. Er verið að velta fyrir sér hækkunum á óbeinum sköttum? Eða á að skattleggja atvinnulífið um þessa peninga? Hvernig á venjulegt fyrirtæki að geta greitt hærra tryggingagjald en þegar er til komið?

Það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin fari að sýna á spilin í þessu efni. Nú er að störfum nefnd á vegum hæstv. fjármálaráðherra sem eftir því sem mér skilst á að koma með tillögur um breytingar á skattkerfinu. Getur hæstv. fjármálaráðherra upplýst hvert sú vinna stefnir? Og af því tilefni: Er það rétt skilið að aðilar vinnumarkaðarins sem þó hafa reynt að leggja ýmislegt til málanna, m.a. með þessari stöðugleikatilraun, hafi ekki aðkomu að þessari nefnd?

Nú gætir vaxandi áhyggna vegna þess atvinnuleysis sem hér hefur verið og ekkert okkar má láta það gerast að atvinnuleysið verði viðvarandi. Því hlýtur það að vera velferðarmál númer 1, 2 og 3 að draga úr atvinnuleysi og skapa vinnu. Það sem meira er, ef okkur tekst að koma aftur slætti í hagkerfið sláum við tvær flugur í einu höggi, okkur tekst að auka skattheimtu og skapa atvinnutækifæri fyrir atvinnulaust fólk.

Því vil ég leita eftir svari hjá hæstv. fjármálaráðherra við spurningunni um til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggist grípa til þess að auka umsvif í hagkerfinu.

Ég dreg þetta saman: Hyggst ríkisstjórnin hækka skatta enn frekar vegna fjárlagaársins 2011 og á hvaða sviði telur ráðherra svigrúm til slíkra hækkana? Er það réttur skilningur að þótt skattstofnar, t.d. bensíngjald, hafi ekki skilað þeim tekjum sem ráð var fyrir gert sé ekki möguleiki til frekari hækkana þeirra stofna? Hvernig er útlitið varðandi tekjur ríkissjóðs? Eru skattahækkanir að skila sér, t.d. tekjuskattur einstaklinga? (Forseti hringir.) Hvaða aðrar leiðir sér ráðherra til að auka tekjur ríkissjóðs en að hækka skatta?