138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

skattar og fjárlagagerð 2011.

[15:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Einfalda svarið við þeirri spurningu er að koma Íslandi í gegnum efnahagserfiðleikana og koma hjólum atvinnulífsins og hagkerfisins aftur í gang. Það er nákvæmlega það sem verið er að reyna að gera.

Ég held að rétt sé að fara örfáum orðum almennt um aðstæðurnar eins og þær blasa við á þessu stigi mála gagnvart fjárlagagerðinni. Þar er sem betur fer hægt að tína til ýmislegt sem hefur lagst með okkur og þróast með jákvæðum hætti að undanförnu, sérstaklega eftir að við fengum aðra endurskoðun samstarfsáætlunar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þannig hefur skuldatryggingarálag á Ísland farið lækkandi og Ísland hvarf í síðustu viku út af listanum yfir þau 10 ríki sem eru í mestri hættu á að komast í þrot. Skuldatryggingarálagið nálgast nú það sem er í þeim löndum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við, fremur en hin sem við vorum í félagsskap við áður. Endurfjármögnun bankakerfisins reyndist því ríkinu mun ódýrari og þess sér stað í lægri vaxtakostnaði sem hjálpar til við heildarjöfnuðinn. Landsframleiðsla dróst að lokum talsvert minna saman en jafnvel síðustu spár gerðu ráð fyrir. Þannig spáði Seðlabankinn í janúar að trúlega hefði orðið um 7,7% samdráttur landsframleiðslu en bráðabirgðatölur Hagstofunnar nú benda til þess að hann hafi aðeins orðið 6,5%. Sömuleiðis gefa nýjustu hagvísar einnig tilefni til að ætla að samdrátturinn á fyrsta fjórðungi þessa árs hafi verið heldur minni en spáð var í janúar þannig að árssamdráttur landsframleiðslunnar á fyrsta fjórðungi verður þá kominn niður í 5,5%, en hann náði hámarki á síðasta fjórðungi síðasta árs og var þá 9,1%.

Halli ríkissjóðs var ekki eins mikill og ráð var fyrir gert á síðasta ári. Munar þar að vísu hvort tekið er mið af hallatölum eins og þær voru settar upp miðað við vaxtakostnað af Icesave. Þá var gert ráð fyrir um 13,5% halla á ríkissjóði miðað við landsframleiðslu en raunin virðist hafa orðið 9,1%. Ef við bætum þar við þeim 2 prósentustigum sem áætlað var vegna vaxtaskuldbindinga Icesave standa samt eftir um 2 prósentustig sem hallinn var minni sökum meiri tekna á árinu og um 0,3 prósentustig sem hallinn var minni vegna minni útgjalda.

Skuldastaða hins opinbera er heldur betri en flestar fyrri spár höfðu gert ráð fyrir og nú er gert ráð fyrir því að skuldirnar verði í hámarki á þessu ári, hreinar skuldir í nágrenni við 45% af landsframleiðslu sem þrátt fyrir allt er ekki slæm staða í flestum alþjóðlegum samanburði.

Atvinnuleysi varð minna á síðasta ári og mun minna en fyrstu spár ársins í fyrra gerðu ráð fyrir, endar nálægt 7,8% á sama tíma og meðaltalið innan OECD er 8,7% svo dæmi sé tekið.

Einkaneysla er meiri. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar tók árstíðaleiðrétt einkaneysla að vaxa á þriðja ársfjórðungi síðasta árs. Hún hélt áfram að vaxa á þeim fjórða og nú er spáð minni samdrætti einkaneyslu og reyndar frekar aukningu einkaneyslu í ár, í staðinn fyrir samdrátt upp á 1 prósentustig. Þessar tölur allar benda til þess að þrátt fyrir allt sé íslenska hagkerfið á réttri leið, við séum að komast í gegnum dýfuna með öllu sársaukaminni hætti en flestar spár framan af gerðu ráð fyrir.

Gengi krónunnar hefur þróast jákvætt nú um margra vikna skeið og hefur styrkst miðað við janúarlok um ein 3,5%, og um 6% gagnvart evru. Þessi styrking gengisins er án nokkurra inngripa Seðlabankans á markaði allt frá því í nóvember á síðasta ári.

Vextir hafa lækkað, stýrivextir eru nú 8,5% og raunverulegir virkir stýrivextir Seðlabankans um 7,5%. Allt eru þetta frekar jákvæðar fréttir þó að óvissuþættirnir séu líka margir. Þar má nefna efnahagsvandræðin í Evrópu. Þar má nefna Icesave-málið óleysta og þar má nefna áhrif eldgossins á efnahag okkar og jafnvel annarra.

Af fjárlagagerðinni er það að segja að við vitum hver staðan er. Við reiknum með um 90–100 milljarða halla á þessu ári. Það bætist við 140–150 milljarða halla í fyrra og 214 milljarða halla á árinu 2008. Það stefnir sem sagt í um 450 milljarða halla á ríkissjóði á þremur árum.

Verkefnið er að ná þessu niður. Þar höfum við gert ráð fyrir um 50 milljarða aðgerðapakka fyrir árið 2011. Við erum að reikna það nákvæmlega núna hver aðhaldsþörfin verði nákvæmlega þannig að við höldum okkur innan markmiða um heildarjöfnuð á árinu 2013. Við gerum okkur vissar vonir um að þessi tala geti orðið eitthvað lægri en 50 milljarðar, en nákvæma tölu get ég ekki nefnt. Ég get heldur ekki gefið mönnum vonir um að hún verði neitt verulega miklu lægri.

Áætlunin að öðru leyti er nokkurn veginn algerlega eins og til stóð. Útgjaldamarkmið fyrstu fjóra mánuði ársins eru vel innan áætlunar og tekjumarkmið að mestu leyti einnig. Við höfðum vissar áhyggjur af tekjuforsendunum á fyrstu mánuðum ársins, en það hefur rétt sig af aftur og bráðabirgðatölur fyrir aprílmánuð eru jákvæðar þannig að við virðumst sömuleiðis nokkurn veginn vera að vera á áætlun, bæði hvað útgjaldamarkmið og tekjumarkmið varðar það sem af er fjárlagaárinu. Það eru góðar fréttir.

Varðandi aðgerðirnar og skattana er því til að svara (Forseti hringir.) að við gerum ráð fyrir því að meginþungi aðgerðanna í næstu umferð verði á útgjaldahlið og ekki nema að litlu leyti í formi tekjuöflunar. Ekki er gert ráð fyrir (Forseti hringir.) meiri háttar skattkerfisbreytingum í næstu umferð.