138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

skattar og fjárlagagerð 2011.

[16:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nú þegar má vera ljóst að skattstefna ríkisstjórnarinnar gengur ekki upp við núverandi aðstæður eins og margir urðu reyndar til að benda á strax og hugmyndirnar voru kynntar, enda er held ég einsdæmi á Vesturlöndum nú um stundir að ríkisstjórn nálgist baráttuna við kreppu á þann hátt sem ríkisstjórn Íslands gerir, m.a. með því að hækka skatta, og hækka þá skatta sem eru hvað líklegastir til að draga úr nýfjárfestingu og uppbyggingu í atvinnulífinu.

Það er þó ágætt að ríkisstjórnin sé byrjuð að huga að fjárlögum næsta árs, a.m.k. er sú vinna hafin í fjármálaráðuneytinu. Vefsíðan Eyjan birtir frétt í dag um að þar sé búið að ráða enn einn starfsmanninn án auglýsingar, ráða pólitískan samherja, að þessu sinni til að setja upp leikreglur kynjaðrar fjárlagagerðar, eins og það er orðað. Vinnan er þá hafin en spurningin er hvort ríkisstjórnin muni eitthvað læra af fyrstu tilraun sinni í nálgun við fjárlög og gera breytingar þannig að við komumst í að auka tekjur ríkisins frekar en að horfa upp á viðvarandi samdrátt sem birtist ekki hvað síst í því hvað heimtur á virðisaukaskatti dragast nú saman og benda til að neysla í samfélaginu, sú neysla sem þarf að halda ríkinu uppi með skattheimtu, dragist saman nánast dag frá degi.

Þarf ekki í fyrsta lagi að eyða óvissunni í stað þess að auka stöðugt á hana eins og ríkisstjórnin gerir með sífellt nýjum og illa útfærðum hugmyndum og ráðast í aðgerðir sem ýta undir fjárfestingu og neyslu í samfélaginu fremur en að gera þveröfugt? Nýjustu tölur um heimtur á skatttekjum sýna að í fyrsta lagi eru skattstofnarnir ekki til staðar, en ekki nóg með það, fyrirtækin eiga ekki peninga til að borga skattana, jafnvel ekki vörsluskattana. Um síðustu áramót (Forseti hringir.) skulduðu íslensk fyrirtæki 112 milljarða í vangreidda skatta.