138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

skattar og fjárlagagerð 2011.

[16:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Traust á stjórnvöldum byggist ekki síst á því að þau hafi styrk tök á ríkisfjármálunum. Í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum sem rædd var hér í þessum ræðustól fyrir tæpu ári er skýrt farið yfir stöðuna, áætlun sett fram um að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og að afgangur verði á rekstri hans á árinu 2013.

Nú hefur komið í ljós að staðan er betri en gert var ráð fyrir þegar skýrslan var samin og er það vel, en verkefnið er stórt eigi að síður og forsendur að mestu óbreyttar. Verkið er bæði einfalt og flókið í senn. Það er einfalt að því leyti að það er augljós staðreynd að ekki eru nægar tekjur til að standa undir óbreyttum útgjöldum. Ákveðið var að leggja megináherslu á breytt skattkerfi við síðustu fjárlagagerð en minni áherslu fyrir árið í ár og því verði að lækka útgjöldin árið 2011 umtalsvert svo dæmið gangi upp. Það verður gert með aðgerðum sem duga til langs tíma og einnig með tímabundnum aðgerðum og sumar þeirra geta orðið töluvert flóknar.

Allir útgjaldaliðir eru í skoðun og kerfið í heild, einnig samspil bóta og skatta. Langtímaaðgerðir felast í skipulagsbreytingum, svo sem sameiningu ráðuneyta og stofnana. Þar verður að hafa í huga hagræðingu en ekki síður að eftir standi styrkari stjórnsýsla. Einfalda verður ráðuneytisskipunina og stofnanagerðina og auka samstarf þvert á ráðuneyti og stofnanir. Bættur rekstrargrundvöllur og góð stjórnsýsla fari þannig saman. Setja þarf sem fyrst tímalínur um þessi verk þannig að vinna megi markvisst að breytingunni. Þegar ákvarðanir verða teknar um tímabundinn niðurskurð verður að hafa skjólstæðinga ríkisstofnana í forgrunni, hvort sem um er að ræða nemendur, sjúklinga eða aðra viðkvæma hópa, og þannig vinni stjórnvöld og fagmenn stofnananna að lausnum á rekstrarvanda. Þannig verða grunnþættir velferðarkerfisins tryggðir.

Virðulegi forseti. Það er Íslandi nauðsynlegt að niðurstaða fjárlagagerðar fyrir árið 2011 veki traust manna bæði innan lands og utan.