138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

skattar og fjárlagagerð 2011.

[16:16]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Í máli hæstv. fjármálaráðherra kom fram að stefnt sé að 50 milljarða aðlögun fyrir árið 2011 og eins og ég skildi hæstv. ráðherra er gert ráð fyrir að að meginstefnu til verði gripið til aðhaldsaðgerða en þó var ekki útilokað að hækkun skatta kæmi til. Af því tilefni langar mig að benda á að þær skattahækkanir sem þegar hafa komið til framkvæmda vegna áranna 2009 og 2010 námu 72 milljörðum kr. sem er 18 milljörðum kr. meira en stöðugleikasáttmálinn gerði ráð fyrir. Það er úr nokkuð vöndu að ráða fyrir ríkisstjórnina að efna til frekari skattahækkana miðað við þá aðstöðu sem þar er uppi, enda kom það glögglega fram í máli hv. þm. Helga Hjörvars að a.m.k. af hálfu Samfylkingarinnar virðist ekki vera mikill spenningur fyrir því að fara í frekari skattahækkanir.

Allt að einu hlýtur meginmarkmið okkar í ríkisfjármálum núna að vera að auka tekjur ríkissjóðs, skapa svigrúm til þess að tekjur í landinu aukist, skapa svigrúm til þess að auka sláttinn í hagkerfinu.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvaðan hann telji að þær tekjur muni koma. Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til þess að hvetja til fjárfestinga og slíkra hluta til þess að efla þennan nauðsynlega slátt í hagkerfinu?

Mig langar líka til að spyrja í tilefni af þessari nefnd sem skipuð hefur verið á vettvangi fjármálaráðuneytisins, til að endurskoða skattkerfið eftir því sem mér skilst, hvert markmið hennar sé. Hvaða breytingar var nefndinni uppálagt að skoða? Jafnframt spyr ég: Hvenær eigum við von á að þessi nefnd skili af sér? Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að hann stefndi ekki á að hér yrðu gerðar meiri háttar skattbreytingar, en í ljósi þess að ekki var loku fyrir það skotið að einhver skattur mundi samt sem áður hækka spyr ég: Verður það á grundvelli þessarar nefndar? Og hvenær eigum við von á því að þær niðurstöður líti dagsins ljós?