138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[16:50]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp um fjármál stjórnmálaflokka. Ég vil byrja á að taka það fram að þótt okkur í Hreyfingunni finnist ekki nægilega langt gengið finnst okkur frumvarpið skref í rétta átt. Það sem situr mjög í mér er að framlög fyrirtækja eru enn heimil. Í 8. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis, sem heitir „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna“, segir, með leyfi forseta:

„Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til þess að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna.“

Nú langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða rök hún telur gild fyrir því að lögaðilar geti enn stutt stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn.