138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[16:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Verne Holdings, sem hér var spurt um, þá var ítarlega um það fjallað hér í þinginu. Menn höfðu vissar áhyggjur af því að einn eigandi þess væri einn af þeim sem voru í útrásinni og menn vildu setja skorður við því. Sumum finnst það réttmætt og sumum finnst það ekki réttmætt að gera það. Um þetta var skipst á skoðunum í nefndinni og m.a. settar skorður við því, ef ég man rétt, að þessi umræddi aðili fengi arðgreiðslur og á það hefur minn flokkur, og reyndar fleiri hér á þinginu, fallist. Af sjálfu leiðir að ég studdi það ákvæði og þess vegna tel ég ekkert óeðlilegt við það miðað við þær skorður sem þarna voru settar.

Varðandi kvenframbjóðendur sem mæta eiga í einhverju tilteknu fyrirtæki, ég hef nú ekki heyrt um þetta áður, og fengið fundaraðstöðu, er það það sem háttvirtur þingmaður er að tala um? (Gripið fram í: Já, …) — Já, þá er það hluti af því sem telst framlög og á samkvæmt þessu að teljast fram sem framlög frá lögaðila og það þarf bara að meta það, gert er ráð fyrir því í frumvarpinu.