138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

504. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja frá október 2008 til ársloka 2009. Við ræðum nú, virðulegi forseti, og munum ræða á næstu mánuðum og missirum um svokallaða rannsóknarskýrslu Alþingis, sem er eitt viðamesta verkefni sem farið verið hefur í á þessu sviði og einsdæmi í íslenskri sögu. Ef ég man rétt, virðulegi forseti, er hún 3.800 síður af upplýsingum um hluti sem gerðust á ákveðnu tímabili fyrir bankahrunið.

Nú geta menn haft margvíslegar skoðanir á því hvort umræða okkar um þessi mál sé um niðurstöðu rannsóknarskýrslunnar, hvort hún sé málefnaleg eða uppbyggileg og sýnist örugglega hverjum sitt um það en allir eru sammála um að hér erum við með mikið af upplýsingum sem eru góður grundvöllur fyrir slíka umræðu og mikið af upplýsingum sem munu nýtast okkur í framtíðinni ef við notum skýrsluna eins og til er ætlast. Það er ekki þannig að það tímabil sem um ræðir í skýrslunni hafi verið endir á einhverri þróun, frá hruninu og fram til dagsins í dag hefur mikil fjárhagsleg endurskipulagning staðið yfir hjá íslenskum fyrirtækjum og heimilum. Til að setja þetta í eitthvert samhengi, virðulegi forseti, þá er talið að um 6.000 milljarðar hafi tapast við bankahrunið og erlendir kröfuhafar töpuðu stórum hluta af þeim. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur kallað mjög eftir því að fá upplýsingar um hversu mikið hefur verið afskrifað frá gömlu bönkunum til nýju bankanna og þó svo að við höfum ekki fengið nánari upplýsingar um það — ég vona að við fáum þær — þá er alveg ljóst að þar er um hundruð milljarða að ræða, jafnvel hærri upphæðir.

Hvað þýðir það að verið sé að afskrifa til nýju bankanna? Það þýðir að nýju bankarnir taka við lánum sem er búið að gera ráð fyrir að þurfi að afskrifa verulega, sum að fullu, önnur minna. Frá bankahruninu hafa fyrirtæki og eigendur þeirra fengið afskriftir á gríðarlegum fjárhæðum. Þegar við skoðum rannsóknarskýrsluna sjáum við að víða var pottur brotinn og full ástæða fyrir okkur að hafa allan varann á þegar kemur að málum sem þessum, sérstaklega þegar eftirlit er ónógt eins og verið hefur frá bankahruninu. Það hefur oft verið nefnt að frá bankahruninu og fram til þess að eftirlitsnefndin tók til starfa um síðustu áramót hafi verið hér gósenland spillingar. Gríðarlega miklir möguleikar eru til að misfara með hluti ef svo ber undir.

Nú vona ég, virðulegi forseti, að það hafi ekki verið niðurstaðan. Ég vona að hlutirnir hafi verið unnir eins vel og mögulegt er. En ég veit hins vegar að ef við skoðum þetta ekki með skipulegum hætti munum við áfram vera í því umhverfi sem við erum í núna sem er mjög óþægilegt og byggir ekki á trausti heldur tortryggni. Vikum og mánuðum saman höfum við daglega séð umfjöllun fjölmiðla um ósamræmi í afskriftarmálum og meðferð á skuldurum. Ég þarf ekki að nefna þau dæmi. Ég hef reynt eins og hægt er að nefna ekki einstök dæmi eða einstaklinga í þessari umræðu vegna þess að mjög mikilvægt er að við setjum almennar reglur, skoðum þetta með skipulegum hætti en dettum ekki í skotgrafir eins og við gerum allt of oft þegar við ræðum ákveðna einstaklinga eða fyrirtæki. Ég veit hins vegar, virðulegi forseti, að ef eitthvað er að marka þær blaðafregnir og fjölmiðlafregnir sem hafa verið í gangi er alveg ljóst að ekki er gegnsæi í þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið og ekki fullt samræmi þar á milli. Virðulegi forseti, það er eitthvað sem fólk mun aldrei sætta sig við.

Það er að vísu afskaplega dapurlegt að enginn fulltrúi stjórnarliðsins sé í þingsalnum þegar við ræðum þetta mál og ég vona að það sé ekki merki um að þeir hafi ekki áhuga á málinu. Ég verð að leiðrétta mig, virðulegi forseti, því ég sá þarna glitta í hv. þm. Björn Val Gíslason og ég vona að það þýði að hann hafi áhuga á málinu því það er afskaplega mikilvægt að þetta mál verði afgreitt hratt og vel alveg eins og rannsóknarnefndarmálið var afgreitt á sínum tíma með breiðri pólitískri samstöðu undir forustu okkar sjálfstæðismanna.

Í nefndinni er lagt upp með að setja nefnd af stað sem hefur það hlutverk að rannsaka starfsemi fjármálafyrirtækjanna í þessu millibilsástandi en frumvarpið er að nokkru leyti byggt á lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Eins og ég nefndi hafa ýmsar sögusagnir gengið um ósamræmd og ógagnsæ vinnubrögð og margir leitt að því líkur að fjármálafyrirtæki hafi mismunað viðskiptavinum sínum og hvorki hugað að samkeppnis- né jafnræðissjónarmiðum. Þessu hafa fjármálafyrirtæki vísað á bug og haldið því fram að allar ákvarðanir hafi verið teknar á grundvelli almenns mats og í þeim eina tilgangi að hámarka verðmæti og tryggja hagsmuni bankanna. Flutningsmenn þessa frumvarps telja mikilvægt að nefndin taki í skýrslu sinni afstöðu til þess á hvaða hátt skuli birta upplýsingar um afskriftir skulda til handa fyrirtækjum og eigendum þeirra. Sérstaklega skuli nefndin huga að því með almannahagsmuni að leiðarljósi að birta í skýrslunni upplýsingar um hvaða aðilar hafi fengið felldar niður skuldir sínar við fjármálafyrirtæki.

Í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um meðferð mála sem tengjast afskriftum og endurskipulagningu fjármálafyrirtækja telja flutningsmenn mikilvægt að sett verði á fót sú nefnd sem frumvarp þetta fjallar um enda telja þeir afar mikilvægt og til hagsbóta fyrir alla aðila, bæði almenning og fjármálafyrirtæki, að grunsemdum sé eytt svo traust skapist aftur á bankastarfsemi í landinu. Það er kjarni málsins, virðulegi forseti, að traust skapist og því miður höfum við afskaplega lítið fjallað um hvernig við ætlum að skapa það. Það umhverfi sem við búum við í dag er erfitt fyrir mjög marga, tortryggni ríkir á milli þeirra sem eru til meðferðar í bankakerfinu. Þetta umhverfi og þessar aðstæður eru gríðarlega erfiðar fyrir fólk sem starfar í bankakerfinu og maður finnur það þegar maður heyrir í því fólki, hvort sem það kemur sem gestir á fund hv. viðskiptanefndar þar sem ég sit eða annars staðar. Það sem verður erfitt í þessu er hvernig við ætlum t.d. að upplýsa um afskriftir til handa fyrirtækjum. Eins og ég nefndi áðan verða afskrifaðar upphæðir sem nema hundruðum milljarða kr. og ljóst er að þær upplýsingar munu liggja frammi á einhverjum tímapunkti. Eftir eitt til eitt og hálft ár héðan í frá munu menn geta skoðað það í ársreikningum þeirra fyrirtækja sem hafa fengið meðferð hversu mikið hefur verið afskrifað. Ég held að við, þessi nefnd og þær þingnefndir sem að þessu koma, ættum að velta því fyrir okkur og meta það hvernig best sé að haga upplýsingagjöfinni þannig að við værum að ná því markmiði að skapa aðhald hjá þeim sem með þetta fara og einnig tryggja að traust skapist og menn sjái að farið hafi verið eftir settum leikreglum þegar afskriftirnar voru framkvæmdar.

Virðulegi forseti. Ég held að útilokað sé að við náum einhverri sátt, einhverju trausti á meðan við látum eins og ekkert sé að gerast og lokum augunum fyrir því að nú er mikil fjárhagsleg endurskipulagning í gangi. Það er mikið um afskriftir í bankakerfinu og þær ákvarðanir verður að taka, það er alveg hreint og því fyrr sem það er gert því betra. En við verðum líka að vita að við getum verið örugg um að þau mál séu framkvæmd með ábyrgum og réttum hætti og að eftirlit sé með þeim. Við settum upp sérstaka eftirlitsnefnd sem tók til starfa um áramótin en margar ákvarðanir voru teknar frá hruninu í október 2008 til loka árs 2009, m.a. hjá mjög stórum og valdamiklum fyrirtækjum á Íslandi og það er öllum fyrir bestu að það liggi alveg klippt og skorið fyrir að þar hafi verið farið að settum reglum og ekki pottur brotinn. Þess vegna leggjum við þetta mál fram, virðulegi forseti, og af því að við höfum ágætan tíma fram á vorið og höfum reynslu af því hvernig við höndlum mál eins og þetta, það er lifandi fyrir framan okkur, treysti ég að við afgreiðum þetta mál hratt og vel. Nú er góð samstaða um þetta meðal stjórnarandstöðunnar en það reynir á hvernig stjórnarliðar taka á þessu máli. Það er auðvitað ákveðinn prófsteinn. Flestir ef ekki allir tala um að skynsamlegt hafi verið að fara í þá rannsóknarnefndarvinnu sem Alþingi ákvað að fara í í tengslum við bankahrunið. Hér erum við með mál sem hefur ekki verið skoðað en augljóst er að þarf að skoða sérstaklega og ef við setjum það ekki í þennan farveg verður það ekki skoðað og mun alltaf vera uppspretta tortryggni í þjóðfélaginu. Þetta er í mínum huga algert forgangsmál og ég vonast til þess og legg til að hv. viðskiptanefnd fái þetta til umfjöllunar og vinni þetta sem forgangsmál. Ef við gerum það þá erum við að skapa grundvöll fyrir trausti á bankakerfinu, trausti sem við virkilega þurfum á að halda.