138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

504. mál
[18:11]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta en það er vissulega rétt, sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi áðan, að tækifæri eru fólgin í skýrslunni góðu sem kom fram fyrir nokkrum dögum, hálfum mánuði eða svo. Það eru mörg tækifæri fólgin í henni og þar er víða að finna viðspyrnu til að koma okkur úr þeim farvegi sem við vorum í og erum að reyna að spóla okkur upp úr, viðspyrnu inn í annað og betra umhverfi, bæði í stjórnmálum og viðskiptalífinu, og við eigum að nýta öll tækifæri til þess.

Rannsókn á hruninu, eða því sem gerðist eftir hrunið, sem hér er fjallað um, rannsókn á eftirlitsskyldum fjármálafyrirtækjum, gæti verið einn liður í því. Ég nefni rannsókn, sem væntanlega fer af stað, eða ég ætla að vona það a.m.k., á starfsemi sparisjóða fyrir hrun og þá væntanlega eftir hrun líka. Allt mjög brýnt hvað þetta varðar. Það mætti jafnvel bæta þarna inn einum banka eða svo, sem heitir Seðlabanki, hvað þar gerðist fljótlega eftir hrunið og hvernig málum var háttað þar. Þar voru samskipti á milli Seðlabanka og annarra viðskiptabanka og fjárfestingarbanka hér á landi þannig að jafnvel mætti fara inn í þá hluti.

Ég lít á þetta mál sem einn hlut af mörgum. Ég nefndi hugsanlega rannsókn á sparisjóðunum, rannsókn á fjármálafyrirtækjum. Við vorum að ræða áðan mál um styrki til stjórnmálasamtaka o.s.frv. Mér finnst það allt vera af sama meiði, þ.e. við erum að finna okkur hugsanlega viðspyrnu í skýrslunni, og kannski þar helst, til að fara inn í annað og betra umhverfi en það sem við erum að koma úr þar sem fólk hefur þá meira traust á stjórnmálum og viðskiptalífinu og gegnsæi verður meira. Ég held að full nauðsyn sé á því.