138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

504. mál
[18:13]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Birni Val Gíslasyni um það að við eigum að fara í þau verkefni og rannsaka sem mikilvægt er að fara í og ég veit að hv. þingmenn Vinstri grænna og einhverjir fleiri eru með frumvarp um rannsókn á sparisjóðum. Ég er sammála því, virðulegi forseti, að mér fannst vanta í rannsóknarskýrsluna þann þáttinn. Ég styð hv. þingmenn í því og ég held að það sé eitt af því sem við eigum líka að gera, þ.e. að taka sparisjóðina. Síðan eigum við að taka annað það sem okkur finnst vera mikilvægt. Ég leit að vísu svo á að rannsóknarskýrslan hefði sérstaklega tekið Seðlabankann fyrir og skoðað þann þáttinn mjög vel en hins vegar er aðalatriðið að við förum vel yfir þessi mál. Það er mjög mikilvægt að skoða sparisjóðina, þann þátt vantar inn í rannsóknarskýrsluna, þeir voru orðnir mjög stórir. En þetta er líka mjög mikilvægt fyrir okkur af því að við eigum eftir að móta, svo að við tökum bara sparisjóðina, það hvers konar sparisjóðaumhverfi við viljum sjá í landinu. Við gerðum það því miður ekki síðasta sumar þegar við gengum frá lögum um sparisjóðina og það er afskaplega fróðlegt að fara yfir þá sögu, hvernig sparisjóðirnir þróuðust, og reyna að læra af þeim mistökum sem þar urðu. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Birni Val Gíslasyni, það er mjög mikilvægt að taka sparisjóðina fyrir.

Þetta tímabil er svolítið týnda tímabilið í þessu en er samt sem áður gríðarlega áhrifaríkt því að stundum hefur verið gengið frá málum, fjárhagslegri endurskipulagningu, á miklum hraða, hjá mjög mörgum fyrirtækjum á þessu tímabili frá hruni og fram að síðustu áramótum. Margar afgreiðslur þar hafa vakið upp spurningar, eins og við þekkjum.