138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er ár liðið frá því að 27 nýir þingmenn tóku sæti á Alþingi Íslendinga. Krafan eftir hrun var endurnýjun og önnur vinnubrögð og við, nýju þingmennirnir, höfum lært á þingstörfin og þingsköpin og mörg hver samlagast ríkjandi umræðuhefð. Það er skiljanlegt og þekkt að stjórnmálamenn litist af þeirri stjórnmálamenningu sem þeir lifa og hrærast í og enn er það svo að bæði gagnrýni og varnir gegn gagnrýni eru í þessum sal oft og tíðum svo öfgafull að almenningur veit ekki hverju hann á að treysta. En það er einmitt skortur á trausti sem er mein í þessu samfélagi og skortur á trausti á stjórnmálamönnum er stór hluti af því meini.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að íslensk stjórnmál hafa að mörgu leyti ekki náð að þroskast í samræmi við hugsjón lýðræðisins. Um íslensk stjórnmál segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Þau hafa þvert á móti einkennst af kappræðum og átökum þar sem markmiðið er að sigra andstæðinginn og sannfæra áhorfendur, burt séð frá því hvort það þjóni best almannahagsmunum og sé í samræmi við bestu upplýsingar.“

Hæstv. forseti. Ég vildi vekja athygli á þessu og skora um leið á alla þingmenn að breyta umræðuhefðinni og láta hernaðarlist og valdaklæki víkja fyrir góðum málefnum og röksemdum sem eru byggðar á traustum upplýsingum.