138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi kveðja mér hljóðs, undir störfum þingsins, út af grein í Morgunblaðinu eftir Ragnar Önundarson, bankamann og viðskiptafræðing. Þar er hann að eggja okkur og hvetja þingmenn og stjórnvöld til að kanna hvort ekki væri rétt að sækja skaðabætur til erlendra banka út af framferði þeirra í tengslum við bankahrunið. Þar koma fram mjög áhugaverðar upplýsingar um að slíkt eigi sér fordæmi og upplýsir greinarhöfundur að Royal Bank of Scotland, Royal Bank of Canada, Canadian Imperial Bank of Commerce, The Toronto-Dominion Bank, JP Morgan Chase, Credit Suisse, Meryll Lynch, Fleet Bank, Barclays og Deutsche Bank hafi allir samþykkt að greiða skaðabætur vegna viðskipta sinna við Enron á sínum tíma. Þessar upplýsingar hafa ekki farið hátt og hann færir rök fyrir því, þessi ágæti maður, að hér sé um mjög sambærileg mál að ræða. Það er okkar hlutverk, þingmanna og stjórnvalda, að gæta hagsmuna okkar Íslendinga í hvívetna og ég held að þetta mál sé þess eðlis að það sé þess virði að fara yfir það.

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera spurning fyrir okkur hvar við eigum að gera það. Mér dettur fyrst í hug að hv. viðskiptanefnd ætti að setjast yfir málið. Ef einhverjar aðrar leiðir eru betri eða færari þá skulum við fara þær en aðalatriðið er að hér er um stórmál að ræða og það væri ábyrgðarhluti af okkur þingmönnum að skoða það ekki sérstaklega.