138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það má með sanni segja að þessi liður í þingsköpunum sé orðinn að eins konar blandi í poka. Mig langar til að byrja á því að þakka flokkssystur minni, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir innlegg hennar hér í dag.

Til þess að umræðuhefð Alþingis breytist þarf hún að breytast í hjarta og huga hvers einasta hv. þingmanns sem hér situr. Það sama á við um skipulag á störfum þingsins. Skipulag á störfum þingsins er í okkar höndum, það að breyta þingsköpunum er í okkar höndum. Það eina sem við þurfum að gera, frú forseti, er að komast að samkomulagi um hvaða breytingar við viljum gera. Ég vil t.d. takmarka ræðutíma af því að það er eina leiðin til að hafa tímastjórnun á þessum vinnustað. Hingað til hefur ekki verið meiri hluti fyrir þeirri breytingu svo ég viti, (Gripið fram í.) kannski hefur það breyst. Þetta er allt í okkar höndum þannig að ef við komumst að niðurstöðu um það breytum við náttúrlega skipulagi, vinnubrögðum og umræðuhefð. Það er allt saman i höndum hv. þingmanna í þessum sal.

Hvað varðar annað skipulagsmál sem er skipulag Stjórnarráðsins þá hefur legið fyrir í heilt ár hvaða breytingar ríkisstjórnin hyggst gera. Þær hafa verið kynntar og hafa verið í undirbúningi í ráðuneytunum. Útfærsla þeirra eða hvenær nákvæmlega þeim verður ýtt úr vör eða komið í framkvæmd er óákveðið á þessari stundu en allt er það gert til að styrkja stjórnsýsluna hér á landi sem ég held að hljóti að vera höfuðverkefni í ljósi rannsóknarskýrslunnar góðu sem við fjöllum hér um með einum eða öðrum hætti á hverjum degi.

Allra síðast, vegna þess að hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi hvalveiðar, bind ég miklar vonir við að á hvalveiðum verði tekið af yfirvegun (Forseti hringir.) og pólitískri festu og að við þurfum ekki að skjóta fleiri hvali hér á næstunni.