138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni, það er alveg með ólíkindum að ríkisstjórninni skuli vera að takast að stefna hvalveiðum okkar í óvissu. Maður skilur það hins vegar þegar tveir hv. þingmenn úr stjórnarliðinu eru búnir að koma hér upp, fulltrúar þess agnarlitla minni hluta sem er á móti hvalveiðum, til þess að tala gegn hvalveiðum.

Hvalveiðarnar gengu mjög vel á síðasta ári. Um veiðarnar ríkti algjör friður og þannig fór á síðasta ári að tekjur af ferðamennskunni höfðu aldrei nokkurn tímann verið meiri þrátt fyrir hrakspár í aðra veru. Hvalveiðarnar sköpuðu gríðarlega mikil verðmæti, þær sköpuðu gjaldeyristekjur einmitt þegar við þurftum á þeim að halda. Það urðu til fjöldamörg störf í landi þar sem 17.000 manns ganga um atvinnulausir. Þess vegna þarf maður að láta segja sér þrisvar að það skuli virkilega vera ætlunin, eins og mér finnst hægt að lesa út úr ummælum þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað í þá veru, að reyna að bregða fæti fyrir þessar veiðar.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess vegna þess að ég hélt satt að segja að fyrir væru nægjanleg vandamál við að glíma í þjóðfélaginu, við þyrftum ekki sérstaklega að hafa ríkisstjórn sem vinnur bókstaflega að því að búa til fleiri vandamál sem hún ræður síðan ekkert við að leysa úr. Þegar maður hugleiðir þetta hvarflar hugurinn að þeim hugmyndum sem núna eru uppi um breytingar á stjórnsýslunni okkar og Stjórnarráðinu sem eiga að leiða til þess að taka að mestu leyti sjávarútvegsmálin út úr sjávarútvegsráðuneytinu og færa þau eitthvað annað. Úr því að hægt er að klúðra málum eins og hvalveiðunum með þeim hætti sem verið er að gera við þessa stjórnsýslu líst mér ekki á framhaldið ef það verður niðurstaðan sem talað er um í ríkisstjórninni, að færa sjávarútveginn að mestu leyti út úr sjávarútvegsráðuneytinu.