138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að bæta aðeins við ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, og hvetja þingmenn til að skoða fréttamyndband það sem er núna á netmiðlum frá Bretlandi þar sem rætt er við spunameistara Samfylkingarinnar í Bretlandi, þ.e. Verkamannaflokksins. Það er assgoti kunnugleg aðferðafræði sem þar er beitt. Hvet ég þingmenn og fleiri sem þetta heyra til að kynna sér það myndband og gá hvort þar sé eitthvað sem þeir kannast við frá hinum íslenska samfylkingarflokki.

Frú forseti. Mig langar aðeins að koma inn á skipulag Stjórnarráðsins og þær breytingar sem þar eru fyrirhugaðar. Hér er búið að ræða þetta töluvert í ræðustól síðustu daga en ekki hefur verið minnst á líklega meginástæðu þess að ráðist er í þessar breytingar. Það er sú aðlögun sem stjórnarflokkarnir og þessi ríkisstjórn eru núna í með íslenskt stjórnkerfi — að Evrópusambandinu. (ÞSveinb: Við erum ekki …) Það er ekkert öðruvísi. Það er að sjálfsögðu, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, verið að laga íslenska stjórnsýslu, ráðuneytin og það sem við erum að starfa að á Alþingi, að Evrópusambandinu. Við erum ekkert í umsóknarferli, frú forseti, við erum að gera þetta land að viðhengi á þessu Evrópusambandsbatteríi sem allt er í kaldakoli akkúrat núna. (Gripið fram í.) Þetta er nákvæmlega það sem er í gangi.

Það er alveg ljóst, frú forseti, að það sem ég er að segja hér núna er dagsatt því að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Nú sitja samfylkingarþingmennirnir órólegir í sætum sínum því að þeir sjá þetta vitanlega. Þeim hefur hingað til tekist að breiða yfir þetta en þetta er staðreyndin, frú forseti. Það er verið að búa til eitt Evrópu-atvinnumálaráðuneyti til þess að við getum marserað inn í þetta batterí þegar Samfylkingin er búin að ná sínu fram gagnvart Vinstri grænum sem láta allt undan þessum Evrópukrataflokki sem hér er á þingi. [Hlátur í þingsal.]