138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

brottfall laga nr. 16/1938.

436. mál
[14:06]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Íslensk stjórnvöld undirrituðu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 30. mars 2007. Með frumvarpi þessu er komið til móts við kröfu í 23. gr. framangreinds samnings Sameinuðu þjóðanna. Þar er kveðið á um skyldu aðildarríkja til að gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðum í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum. Í c-lið 1. mgr. greinarinnar segir enn fremur að fatlaðir, þar með talin börn, skuli fá haldið frjósemi sinni til jafns við aðra.

Því fagna ég afgreiðslu þessa máls og hvet til áframhaldandi vinnu til að uppfylla kröfur sem lagðar eru á aðildarríkin.