138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[14:09]
Horfa

Margrét Pétursdóttir (Vg):

Frú forseti. Með lögum þessum er komið á almennum reglum um vinnustaðaskírteini sem er vel. Vinnustaðaskírteini eru svo sem ekki óþekkt í hinum ýmsu formum. Starfsfólk Landspítala ber á sér slík skírteini og við hér á þessum vinnustað gerum það einnig. Þörfin fyrir þá útfærslu sem nú er að ganga í gegn kom í ljós á þenslutímabilinu sem hófst eftir síðustu aldamót. Eftirlit með þeim fyrirtækjum sem fluttu inn erlent vinnuafl var þarft en ábótavant og voru þá tvö stór verkefni sett í gang með nokkurra ára millibili, Einn réttur — ekkert svindl og svo verkefnið Allt í ljós.

Bæði þessi verkefni miðuðu að því að koma upplýsingum um fyrirtæki og starfsfólk og hvort brotið væri á rétti þessa fólks til stofnana sem með þau málefni höfðu að gera til frekari úrvinnslu. Bæði ASÍ og SA unnu á grundvelli kjarasamnings sameiginlega að því að þessi skírteini yrðu tekin í notkun. Ég mun greiða atkvæði með frumvarpinu.