138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[15:03]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í stutt andsvar en andsvar er það nú varla. Ég ætla eiginlega bara að nýta tækifærið og lýsa yfir ánægju minni með frumvarpið sem hér er komið fram. Ég fagna því frumkvæði sem sýnt er af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins enda tel ég að verið sé að fara fram með einhvers konar hugmynd að tækjum til þess að styrkja það aðhald sem þarf að sýna fjárlögum ríkisins því að framkvæmd fjárlaga á að vera í stöðugri endurskoðun. Ég lít svo á að framkvæmd fjárlaga sé eitt mikilvægasta verkefni okkar um þessar mundir, að hafa stjórn á útgjöldum ríkisins við það árferði sem við búum við í dag og frekar eigi að horfa á útgjaldaliðina en tekjuöflunarþættina að svo komnu máli.

Aðhald og hagkvæmni í rekstri á að vera okkar lykilatriði. Ég sé hér að verið er að leggja til hugmynd að því hvernig við getum bætt framkvæmdina. Mér finnst það því skjóta skökku við að einhver hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins hefur að einhverju leyti sett sig upp á móti þeim hugmyndum sem nú eru í umræðunni um breytingar á Stjórnarráðinu, en við getum kannski rætt það síðar. Ég tel að þær breytingar sem þar er verið að velta upp séu einmitt liður í því að styrkja ráðuneytin til að geta með einfaldari hætti sameinað stofnanir og styrkt aðhaldshlutverkið.

Mig langar að velta upp þeim punkti við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hvort við eigum ekki að ganga lengra og velta því alvarlega fyrir okkur með hvaða hætti við getum endurskoðað fjárlagagerðina í heild. Fram undan er margvísleg endurskoðun á hinum ýmsu vinnubrögðum Alþingis, Stjórnarráðsins, framkvæmdarvaldsins, eins og fram kemur í rannsóknarskýrslunni, en kannski ekki beint vikið að framkvæmd fjárlaga, sem er ekki síst eitt allra mikilvægasta verkefni sem Alþingi hefur.