138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[15:05]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessar undirtektir við frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Ég tek heils hugar undir með honum í því efni að mjög brýnt sé að Alþingi ræði meira og dýpra og geri breytingar sem lúta að fjárlagagerð ríkisins. Ég segi það mjög heiðarlega héðan úr þessum ræðustóli að ef vel ætti að vera og ef verklag væri skynsamlegt ætti Alþingi Íslendinga að vera að ræða í dag fjárlög fyrir árið 2011. Í stað þess stefnir í það í þessu erfiða árferði að Alþingi Íslendinga fái fjárlög ársins 2011 í hendur í byrjun október í haust til umræðu. Við vitum það báðir tveir, hv. þingmaður og ég, að þau viðfangsefni sem munu koma fram í fjárlagagerð fyrir árið 2011 verða gríðarlega erfið og hefði betur verið, þó ekki væri nema fyrir það eitt að búa stofnanir ríkisins undir þann veruleika sem bíður þeirra á næsta ári, að þeim hefði verið gefinn meiri tími til þess að undirbúa þær breytingar þannig að við hefðum meiri tryggingu fyrir því að fjárlögin gengju fram. Ég held því að þetta sé atriði sem beri að skoða, þ.e. að setja fjárlagahlutann fyrr fram. Í því efni hef ég viðrað það opinberlega að Alþingi setti mörkin að vori og ákvæði þann útgjaldaramma sem ríkisstjórninni væri heimilt að vinna eftir og fengi síðan útfærsluna í hendur þegar liði á árið. Ég held að þetta væri atriði sem ætti tvímælalaust að koma til skoðunar.

En meginefnið er það í þessu efni að flýta fjárlagagerðinni og með sama hætti, eins og ég nefndi í mínu fyrra andsvari við hv. þm. Björn Val Gíslason, er það óásættanlegt í mínum huga að Alþingi Íslendinga sé að afgreiða (Forseti hringir.) lokafjárlög tveimur árum eftir að þeim var lokið.