138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[15:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér afskaplega merkilegt mál, sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárreiður ríkisins, en þar er verið að færa aukna ábyrgð á herðar ráðherra. Kall dagsins er agi, ábyrgð og ráðdeild. Eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni hafa mikil lausatök verið á þessum atriðum hér á Íslandi, alla tíð, og ekki bara hjá ríki og ekki bara hjá sveitarfélögum heldur líka hjá fyrirtækjum og einstaklingum kannski sérstaklega.

Ég hef velt því fyrir mér hvað valdi þessum miklu lausatökum í fjármálum nánast heillar þjóðar, ég vil ekki alhæfa, miðað við það sem ég hef kynnst erlendis. Það er sennilega veiðimannaþjóðfélagið, þar sem menn geta haft mikil uppgrip á stuttum tíma, og þar af leiðandi bjargað mörgum málum með einum góðum veiðitúr, og líka verðbólgan sem át upp skuldir. Á 30 ára tímabili voru vextir á Íslandi neikvæðir í boði Seðlabankans. Innlánsvextir voru neikvæðir þannig að sparifjáreigendur töpuðu stöðugt og skuldarar græddu stöðugt og nutu meira að segja skattfrelsis á meðan. Þetta held ég að sé að einhverju leyti ástæðan fyrir því að á Íslandi er orðtakið „þetta reddast“ mikið notað. Það er kannski ástæðan fyrir þessum lausatökum.

Svo erum við með hér á Alþingi ýmiss konar lagasetningu. Ég ætla að lesa úr tveimur. Það eru í fyrsta lagi lög nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Í markmiðunum stendur, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til skipulags heilbrigðisþjónustu. Markmið þeirra er að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er tök á að veita.“

Fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, það er leitað um allan heim að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu og þess skulu Íslendingar njóta eins og tök eru á. Nú er það spurningin hvort orðið „tök“ vísar til þess að tæknilega sé möguleiki á að veita þessa þjónustu eða til þess að fjárhagsleg geta sé til að veita hana. Það er það sem þyrfti að standa þarna skýrar, það þyrfti að standa „sem fjárhagslega og tæknilega“ — ég hafði fjárhagslega á undan — „eru tök á að veita.“ En það vantar og þeir sem vinna eftir þessum lögum líta að sjálfsögðu á markmiðið og segja: Já, við eigum að veita bestu þjónustu, heilbrigðisþjónustu, sem til er í heiminum, alveg sama hvað hún kostar.

Ég hef margoft bent á þessa, hvað á að segja, „útópíu“ sem er í lagasetningunni því að hún fær ekki staðist. Hún fær ekki staðist. En þeir sem framkvæma lögin hafa margt sér til málsbóta, þeir vísa í þetta markmið og framkvæma eftir því. Síðan eru lög um félagsþjónustu sveitarfélaga en í markmiðunum þar stendur:

„Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það gert …“ — og síðan er talið upp hvernig eigi að gera það. Ekki orð um fjárhagslega getu, ekki orð um það að kannski séu takmarkaðir fjármunir til í landinu. Þannig að þetta hvort tveggja leiðir til þess að fólk, og þetta er í fleiri lögum, telur sér skylt samkvæmt lögum að veita mjög ítarlega og ríkulega og dýra þjónustu. Þetta er kannski ástæðan fyrir því hve illa gengur að koma böndum yfir fjárlög ríkis og sveitarfélaga.

Meðan allt lék í lyndi og velferð var mikil og góðæri, á 18 ára valdaferli Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann var víst einn við völd, að því sagt er þegar hentar, (BJJ: Nei, þú verður að segja satt.) hækkuðu launin gífurlega og afgangur var á ríkissjóði ár eftir ár þrátt fyrir stóraukna velferðarþjónustu. (Gripið fram í: Gömlu, góðu dagarnir) Það voru gömlu, góðu dagarnir þegar Sjálfstæðisflokkurinn var velferðarflokkur. En að öllu gamni slepptu hafa ætíð, síðan ég man eftir mér, verið gífurleg lausatök í fjárreiðum ríkissjóðs. Ég minnist þess að einhvern tímann voru fjáraukalög fyrir ein átta ár, held ég, samþykkt á einu bretti, átta ár aftur í tímann eða lengur. Þannig að menn hafa ekki haft mikinn skilning á því að hafa aga, ábyrgð og ráðdeild að leiðarljósi.

Svo koma ráðuneytin sem eru að framkvæma þau lög sem Alþingi setur — ég vísa ákveðnum hluta af ábyrgðinni yfir á Alþingi með því að semja svona „útópíu“-markmið. Þeir framkvæma og þar er farið fram úr fjárlögum eins og ekkert sé. Það er nefnilega þannig að þó samþykkt séu lög um eitt og annað, heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu o.s.frv., eru það alltaf fjárlögin sem takmarka útgjöldin. En það virðist ekki vera mikill skilningur á því hjá þeim sem eru að reka stofnanir ríkisins eða deila út peningum því að það virðist vera að fjárlögin séu allt að því upp á punt. Reyndar held ég að sá skilningur sé nú að veikjast, að þau séu upp á punt, og menn séu farnir að átta sig á því að fjárlög eru mjög mikilvægt tæki til að ákveða hvaða fjármunum megi ráðstafa í hvert verkefni.

Dæmi um það eru fjáraukalög sem oft og tíðum eru með mörg atriði sem ekki voru óvænt. Ég tel að fjáraukalög eigi eingöngu að veita fjármuni til einhvers atviks sem kom upp á óvænt, eins og eldgos sem ekki mátti sjá fyrir o.s.frv. Ef Alþingi setur ný lög á tímabilinu á fjárveitingavaldinu að vera heimilt að setja það í fjáraukalög. Allt annað á að vera í fjárlögum.

Eitt dæmi um agaleysið er t.d. meðferðin á Hörpu, tónlistarhúsinu, sem kemur hvergi fram í fjárlögum, en er samt sem áður skuldbinding til framtíðar, til 35 ára skilst mér, sem Alþingi, fjárveitingavald framtíðarinnar, getur ekki horfið frá þó að það gjarnan vildi nema að borga bætur. Sama er með ýmislegt fleira. Ég nefni t.d. Icesave. Alþingi samþykkti lög 30. desember. Þess var hvergi getið í fjárlögunum þó að hæstv. fjármálaráðherra hafi skrifað undir þann samning sem þá var gerður. Fjármálaráðherra var búinn að skrifa undir samninginn og fyrir Alþingi lá frumvarp um að samþykkja þetta og það var samþykkt 30. desember, samt var það ekki í fjárlögum sem voru samþykkt rétt áður og ekki fjáraukalögum heldur. Samt vantaði sennilega um 100 milljarða inn í þau fjárlög þegar þau voru samþykkt. Svo vel vildi til að forseti Íslands neitaði að skrifa undir lögin og þjóðin kolfelldi þetta samkomulag. Þannig að það má segja að það hafi sloppið fyrir horn og bjargað fjárlögunum sem væru annars mjög illa sett.

Ég tel að ekki eigi bara að auka agann í fjárlögunum heldur eigi menn að fara að skoða það að koma með margra ára fjárlög, eins og hér hefur verið nefnt, jafnvel til fjögurra, fimm ára, þannig að ramminn sé settur fyrir framtíðina, hvert þjóðfélagið er að stefna. Mér finnst það vera allt að því ábyrgðarlaust að hafa fjárlög bara til eins árs því að það er verið að taka ákvarðanir um fjölda atriða eins og t.d. jarðgöng sem tekur mörg ár að byggja eða háskólasjúkrahús sem tekur mörg ár. Reyndar, frú forseti, á líka að fara að fela þann kostnað fyrir ríkissjóði og skattgreiðendum framtíðarinnar, hann á að fara í einhvers konar einkaframkvæmd sem kemur ekki fram í fjárlögum. Þar með er verið að plata bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og litlu börnin sem eiga eftir að borga skattana af því. Ég hef svo sem ekki mikla samúð með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en ég ber mikla umhyggju fyrir ungu skattgreiðendunum sem fæðast með þessar byrðar.

Það sem þetta frumvarp gerir er að færa frekari ábyrgð yfir á ráðherra. Nú þegar er ákvæði í lögum um það að brot á ákvæðum laganna, þ.e. fjárreiðulaganna, varðar skyldur opinberra starfsmanna, þ.e. þeir bera ábyrgð á brotum. Því hefur ekki verið framfylgt, frú forseti, vegna þess að ráðuneytin hafa ekki kært menn fyrir að fara fram úr fjárlögum, mér er ekki kunnugt um það alla vega. Það má vel vera að einn og einn maður hafi losnað úr embætti en það er afskaplega sjaldgæft.

Það á að setja reglur um að þeir sem fara t.d. 4% fram úr fjárlögum verði bara reknir og beri ábyrgð á því þannig séð að hafa virt fjárlög að vettugi. En hér er sem sagt verið að gera ráðherrann ábyrgan og meira að segja þannig að það fer samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð frá 1963, í yfir 40 ára gömlum lögum. Ég tel það mjög nauðsynlegt, vegna þess agaleysis sem hefur verið í framkvæmd fjárlaga, og að það muni gera það að verkum að ráðherra muni taka fastar á brotum undirmanna sem virða fjárlög að vettugi, fara ekki að fjárlögum. Það mun líka gera það að verkum að forstöðumenn stofnana sem vita af þessari ráðherraábyrgð munu gæta sín betur að fara nákvæmlega að fjárlögum. Þá mun kannski koma sú tíð að þessi lausatök hverfi og að aftur snúi inn í íslenskt samfélag, alla vega í opinbera geiranum, agi, ábyrgð og ráðdeild.