138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[15:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hafi ásamt fleiri þingmönnum lagt fram frumvarp til laga um fjárreiður ríkisins. Ef Alþingi Íslendinga ætti að vera að fjalla um einhver mál á erfiðum tímum í rekstri ríkisins þá er þetta grundvallarmál. Eftir að hafa fylgst ítarlega með mjög merkilegri umræðu, sem hér hefur farið fram, hefur það vakið athygli mína að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar hafa ekki haldið ræður. Reyndar hafa tveir þingmenn komið upp í örstutt andsvör en stjórnarflokkarnir ætla gjörsamlega að skila auðu í grundvallarmáli sem snertir það hvernig framkvæmdarvaldið fer með þær heimildir sem löggjafarvaldið felur því hverju sinni.

Nú er það svo, og við höfum þekkt það á undangengnum árum, að ráðherraræðið hefur verið mikið og viðkomandi ríkisstjórnir — og margir flokkar hafa átt aðkomu að þeim — hafa álitið sem svo að séu ákvarðanir teknar við ríkisstjórnarborðið sé það einungis formsatriði að leita til þingsins um aukafjárveitingar. (PHB: Stimpla.) Já, þingið hefur verið ákveðinn stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið í þessum málum á undangengnum árum. Þetta er eitthvað sem við ætluðum að breyta og höfum talað fyrir mörg hér en því miður er það ansi rýrt hvað þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja lítið til umræðunnar í þessu máli. Hér er nefnilega um stórmál að ræða.

Eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson benti réttilega á hér áðan, eftir fund í hádeginu í fjárlaganefnd, hefur það komið í ljós að svipaður fjöldi stofnana er núna að keyra 4% umfram heimildir sínar, rétt eins og árið 2006. Hvernig var umhorfs árið 2006 í íslensku samfélagi? Jú, hér var þvílíkt flæði af peningum út úr ríkissjóði og stofnanir treystu á það að góðhjartaðir stjórnmálamenn, þingmennirnir, mundu á lokaspretti fjáraukalaga bæta upp þá umframkeyrslu sem forsvarsmenn opinberra stofnana stóðu í þá. Nú er það þannig í dag að við verðum að velta hverri einustu krónu fyrir okkur. Ríkissjóður er rekinn með gríðarlegum halla og við þurfum einfaldlega að fara að taka okkur tak þegar kemur að því hvernig við göngum um löggjöf sem Alþingi setur, sem eru fjárlög viðkomandi ára.

Þess vegna fagna ég því að hér er lagt til að ráðherraábyrgð verði aukin þegar forstöðumenn stofnana fara fram úr settum fjárheimildum. Reyndar hefur nú verið heimild til handa ráðuneytum í mörg ár að áminna forstöðumenn ríkisstofnana fari þeir fram úr settum fjárheimildum. En eins og við þekkjum mörg hér hefur ansi sparlega verið farið með þá áminningarheimild þrátt fyrir að viðkomandi stofnanir hafi verið reknar með tapi ár eftir ár eftir ár. Við þurfum einfaldlega að temja okkur nýjan hugsunargang þegar kemur að því hvernig við förum með þá löggjöf sem Alþingi setur hverju sinni.

Ég hef velt fyrir mér í nokkurn tíma ákveðinni tilhneigingu gagnvart þeim aðilum sem eru þó að reka stofnanir sínar af mikilli myndarmennsku. Margir forstöðumenn vilja reyna að gera allt til þess að draga úr kostnaði við starfsemi stofnana sinna og reyna að eiga eitthvað örlítið afgangs ef eitthvað óvænt kæmi upp í rekstri viðkomandi stofnana árið eftir. Nú vilja margir að þær inneignir séu teknar af viðkomandi stofnunum en ég hef verið einn af þeim sem hafa sagt það að verði slíkt að reglu er alveg ljóst að þeir sem reka stofnanir sínar vel munu eyða öllum fjárheimildum sínum ef þeir vita að þær verða teknar af. Þannig að þetta er svona einn angi af þessari umræðu hér. Um leið og við ætlum að taka á þeim sem keyra umfram þurfum við líka að horfa til þeirra sem gera vel í rekstri sínum.

Síðan er það annað, og enn og aftur minni ég á það merkilega í þessu, að þingmenn stjórnarflokkanna vilja ekki taka þátt í þessari umræðu, að við heyrum það, ekki bara hjá þessari ríkisstjórn eins og ég sagði áðan heldur hjá mörgum öðrum, að ákvarðanir eru teknar um það á fundum ríkisstjórnarinnar að auka fjárframlög til tiltekinna verkefna og við þingmenn, fjárlaganefndarmenn, þurfum að heyra þær tilkynningar í fjölmiðlum. Hér er náttúrlega ekki farið eftir því, líkt og stjórnarskrá lýðveldisins kveður á um, að þingið eigi að fara með fjárveitingavaldið. Jú, það er sagt að þetta sé háð fyrirvara um samþykki Alþingis, stundum er það tekið fram. En er það ekki bara vitað að óbreyttir þingmenn stjórnarflokkanna munu stimpla þær tillögur sem ríkisstjórnin ákvarðar hverju sinni og segja bara já? Ég sé að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir er komin hér til umræðunnar, ég fagna því að heyra hvað nýr þingmaður á Alþingi Íslendinga, í stjórnarmeirihluta, hefur til málanna að leggja. Eins og við höfum mörg hver talað fyrir á undangengnum mánuðum, sérstaklega eftir hrunið, þurfum við að breyta mörgu er snertir fjárlagagerðina. Auðvitað er þetta agaleysi, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á, og þetta agaleysi er að miklu leyti til séríslenskt fyrirbæri. Því ef við horfum á það hvernig fjárlagagerðin er á öðrum Norðurlöndum er umframkeyrsla í rekstri stofnana margfalt meiri hér á landi en þar. Það hefur verið ákveðið norm að menn haldi að þingmenn síns kjördæmis muni bara koma þessari stofnun til hjálpar. Við þurfum að temja okkur allt annan hugsunargang í þessum efnum.

Mig langar líka að minna á það sem við vorum að ræða síðast á vettvangi efnahags- og skattanefndar í morgun — þar var verið að ræða um frumvarp þar sem verið var að veita ívilnun gagnvart endurbótum á húsnæði, þ.e. að einstaklingar þyrftu ekki að greiða virðisaukaskatt upp að ákveðnu hámarki. Það er löggjöf sem hefur áhrif, bæði á tekjur ríkissjóðs en ekki síst sveitarfélaganna í landinu. Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga kom á fund efnahags- og skattanefndar og benti á að sveitarfélögin eru að verða þar af nokkur hundruð milljónum króna vegna þessa frumvarps. Var eitthvað rætt við sveitarfélögin þegar kostnaðarmatið var gert? Ekki neitt. Sveitarfélögin koma bara að orðnum hlut og nú er það svo að það frumvarp skapar ríkissjóði á öðrum tekjupóstum mikla fjármuni en sveitarfélögunum ekki.

Gunnlaugur Júlíusson, sem mætti þarna fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga, benti á það hversu þröngt sjónarhorn ríkisvaldsins er, þ.e. fjármálaráðuneytisins í þessu tilviki. Það er bara horft á það hvaða áhrif þetta hefur á ríkissjóð. Það er ekki tekið neitt tillit til sveitarfélaganna, hvaða áhrif viðkomandi lagasetning hefur á fyrirtækin og hvaða áhrif viðkomandi lagasetning hefur á heimilin hér í landi. Í Danmörku er það þannig, að hans sögn, að gert er kostnaðarmat þar sem nákvæm úttekt er gerð á því hvaða áhrif viðkomandi frumvarp hefur á stöðu ríkissjóðs, sveitarfélaga, atvinnulífs og heimila. Hvers vegna þurfum við að vera með einhverjar séríslenska leið? Við erum að tala um rótgróið samfélag, Danmörku, og auðvitað er það eðlilegt í öllum frumvörpum sem ríkisstjórnin leggur fram að menn skoði heildaráhrif viðkomandi frumvarps á heimili, fyrirtæki, sveitarfélög og ríkið.

Menn hafa rætt hér rammafjárlög. Ef það á að vera þannig að Alþingi Íslendinga eigi að vera með fjárveitingavald ættum við að eyða vorþinginu að þó nokkrum hluta í það að ræða um forgangsröðun þegar kemur að úthlutun fjárheimilda úr ríkissjóði. Alþingi ætti á vorþingi að setja einhver rammafjárlög sem væru síðan afhent framkvæmdarvaldinu til frekari meðhöndlunar þannig að þingmenn kæmu fyrr að fjárlagagerðinni. Að þingmenn mundu í sínum röðum forgangsraða, hversu mikla fjármuni ætlum við að setja í heilbrigðisráðuneytið, hversu mikla fjármuni ætlum við að setja í menntamál o.s.frv. Það væri síðan framkvæmdarvaldsins að útfæra þessar tillögur þingsins, sem hefur fjárveitingavaldið, og síðan mundum við taka við frumvarpinu frá ríkisstjórninni á haustdögum. Þetta er ekki svona í dag, þetta hefur verið í umræðunni í mörg ár, rétt eins og þessi umframkeyrsla. En okkur virðist ganga mjög hægt að bæta þau vinnubrögð sem tengjast fjárlagagerðinni og almennt vinnubrögðin hér í þinginu.

Að lokum langar mig að minnast á eftirlitshlutverk þingsins. Það verður, og kannski sérstaklega á tímum sem þessum, að herða á því. Við eigum að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og skýrsla rannsóknarnefndar þingsins hefur sýnt að aðhald Alþingis gagnvart ráðherrum og framkvæmdarvaldinu var af of skornum skammti. Það hljómar kannski ekkert vinsælt að ræða um það að auka mögulega fjárveitingar til nefndasviðs þingsins. En ég held að það frábæra starfsfólk sem vinnur hér innan dyra og aðstoðar okkur þingmenn við að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, að það þurfi að efla það starfsumhverfi sem það ágæta starfsfólk býr við. Það er gríðarlegt álag á nefndariturum þingsins, á lögfræðingum hér innan dyra og oft og tíðum höfum við ekki aðgengi að þeirri sérfræðiþekkingu sem við hefðum kosið að við fengjum. Til að standa vörð um starfsemi Alþingis verðum því að vera óhrædd við að efla þingið. Við þurfum að hafa miklu meira aðhald með framkvæmdarvaldinu en verið hefur á undangengnum árum.

Þó að núverandi stjórnarliðar tali um það að miklar breytingar séu í gangi og ný ríkisstjórn hafi tekið við hefur alls engin breyting orðið á þessu ráðherraræði. Er það svo þegar kemur að stórum ákvörðunum er snerta útgjöld ríkisins að forustumenn ríkisstjórnarinnar, viðkomandi ráðherra, óski eftir fundi í fjárlaganefnd til þess að fara yfir það hvort meiri hluti sé fyrir því að verja tilteknum fjármunum til mikilvægra verkefna? Ég efast um að það sé einu sinni lyft símtóli til þess að heyra í einstaka nefndarmönnum. Þessu verðum við að breyta. Ég horfi hér framan í hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur. Ég er alveg viss um það, af því að ég þekki hv. þingmann að góðu einu, að hún sé komin hingað inn til þess að breyta þessum vinnubrögðum.

Við höfum farið yfir það hér í dag að agaleysi við fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga á Íslandi er margfalt meira en í nágrannalöndunum. Við erum í mjög erfiðri stöðu í dag. Þess vegna þurfum við þvert á flokka að fara hressilega yfir þessi mál. Ég fagna því frumvarpi sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur lagt hér fram. Ég bjóst við því, í ljósi þess hversu gríðarlega stórt mál er um að ræða, að miklu fleiri þingmenn mundu taka þátt í umræðunni vegna þess að það eru fjölmargir vinklar og álitamál sem koma til greina í þessari umræðu.

Við vorum að ræða hér um daginn um siðareglur sem hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, setti fram, siðareglur fyrir ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Það er gott mál, ég styð það. En þá verður einhver alvara að vera á bak við slíkan málflutning. Verði frumvarpið að lögum er alveg ljóst að mikil og ítrekuð framúrkeyrsla mundi brjóta í bága við siðareglur ríkisstjórnarinnar. Þá erum við farin að ræða um ráðherraábyrgð í þeim efnum. Þá erum við kannski farin að ræða um alvöru málsins því að menn hafa komist upp með það — hvort sem það var í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, eða núna Vinstri grænna og Samfylkingar — að fara dálítið létt í kringum löggjöf sem Alþingi Íslendinga setur og snertir fjárlög íslenska ríkisins.

Þessu verðum við að breyta og því fagna ég frumvarpinu sem hér er lagt fram. Ég vona að það fái góða og ítarlega meðferð í fjárlaganefnd þingsins, mundi ég ætla, vegna þess að hér er um að ræða mál sem þarf að leggjast heilmikið yfir. En það er alveg á hreinu þegar kemur að fjárlagagerð íslenska ríkisins að mörgu er ábótavant. Það er margt sem við getum lært af öðrum þjóðum og við getum lært af þeirri bitru reynslu sem við þurfum nú að horfast í augu við. Ég vona því að hv. stjórnarliðar leggist á sveif með frumvarpinu, með breyttum vinnubrögðum til þess að auka aga í íslenskri fjárlagagerð og í framkvæmd hennar.