138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[15:58]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir stórgóða ræðu. Hún brást ekki væntingum mínum. Hér er kominn þingmaður sem er kominn hingað til að breyta og ég get ekki betur heyrt en að við séum sammála í mörgum grundvallaratriðum.

Ég held í raun og veru að við náum ekki neinni grundvallarbreytingu á því hvernig menn starfa hér inni fyrr en við náum fram því markmiði sem við hv. þingmaður erum sammála um, að ráðherrar verði ekki á sama tíma alþingismenn. Það verði einfaldlega algerlega skilið á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins og ég veit að hv. þingmaður er með mál þess efnis í þinginu sem nýtur víðtæks stuðnings að mínu viti.

Varðandi eftirlitshlutverk þingsins og að Alþingi verði einhver stóri bróðir heyrum við í störfum okkar af ýmsum hlutum er tengjast framkvæmdarvaldinu, við fáum jafnvel ýmsar upplýsingar utan úr bæ á nefndarfundum. Þingmenn geta óskað eftir því gagnvart Ríkisendurskoðun að hún kanni tiltekin mál ef þeir heyra um einhver mál sem orka tvímælis. Að því leyti er aðhaldshlutverk þingsins mjög mikilvægt og að þingmenn séu meðvitaðir um að þeir eigi að veita framkvæmdarvaldinu aðhald.

Hv. þingmaður varar við því að menn setji ráðherraábyrgð inn í lög en áminningin sem ráðherrar geta fengið, þ.e. framkvæmdarvaldið gagnvart forstöðumönnum ríkisstofnana, hefur ekki verið virt. Það mundi e.t.v. auka ábyrgð ráðherra ef þeir vissu að ef þeir stæðu sig ekki í því að veita undirmönnum sínum aðhald mundi jafnvel einhver ráðherraábyrgð virkjast gagnvart Alþingi Íslendinga. Fyrst (Forseti hringir.) menn hafa ekki notað þessa áminningu þurfum við að setja meiri pressu á þannig að þeir auki aðhald í ríkisrekstrinum.