138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

kynjuð hagstjórn.

418. mál
[15:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Það er loksins komið að því að bera upp þessa fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra. Við erum ítrekað búin að reyna að hittast hérna og ræða um kynjaða hagstjórn en það hefur því miður ekki gengið eftir. En nú er ég hins vegar komin til að bera upp þessa fyrirspurn og hún er svohljóðandi:

1. Hvernig var staðið að innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar við fjárlagagerð ársins 2010? Óskað er dæma um ákvarðanir við fjárlagagerðina þar sem tillit var tekið til kynjasjónarmiða.

2. Hvernig er ætlunin að standa að innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar við fjárlagagerð ársins 2011? Óskað er dæma um ákvarðanir við fjárlagagerðina þar sem tillit er tekið til kynjasjónarmiða.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að bera upp þessa munnlegu fyrirspurn er sú að það sló mig eilítið við síðustu fjárlagagerð að þrátt fyrir að mjög fallegur bæklingur fylgdi með fjárlögunum, þar sem einmitt var fjallað um kynjaða hagstjórn, var mjög erfitt að finna dæmi um ákvarðanir í fjárlagagerð þessa árs þar sem sérstaklega var verið að taka tillit til kynjasjónarmiða. Eitt dæmið sem ég varð vör við í menntageiranum, en ég sit í menntamálanefnd, var að menntamálaráðherra, sem er kona, tók ákvörðun um að skera niður fjárveitingar til fjarnámsnema. Það kom síðan í ljós, þegar ég aflaði mér upplýsinga frá ráðuneytinu um samsetningu nema sem stunda fjarnám, að meiri hluti þeirra er einmitt konur. Þetta kom síðan að ákveðnum dæmum eins og í Borgarholtsskóla þar sem þeir sáu fram á að þurfa að skera niður nám — ég man ekki hvort það var félagsfræðibraut — sem eingöngu konur stunda, konur sem stunda fjarnám samhliða vinnu. Þær sáu fram á það að ef þær ætluðu að klára þetta nám mundu þær væntanlega þurfa að hætta að vinna og fara í fullt nám sem var nánast ómögulegt í ljósi mikilvægra tekna þeirra fyrir heimilin.

Mér skildist líka að sett hefði verið á stofn sérstök nefnd sem hefði einmitt átt að vinna að þessari kynjuðu hagstjórn við fjárlagagerðina og hún hafi ekki verið tilbúin að skila af sér þegar fjárlögin voru lögð fram í október. Ég mundi því gjarnan vilja heyra betur frá ráðherranum hvernig hann hyggst tryggja það að þessi sjónarmið verði í heiðri höfð við fjárlagagerð ársins 2011. Það er orðið ansi stutt þangað til við fáum næsta frumvarp fyrir utan það að gefa út þessi fallegu fylgiskjöl og síðan annan lítinn bækling sem við þingmenn fengum líka sendan.