138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

kynjuð hagstjórn.

418. mál
[15:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Bara aftur aðeins um ráðninguna, hún er algerlega samkvæmt þeim reglum sem yfirleitt er farið eftir þegar um er að ræða tímabundið og afmarkað verkefni þar sem þarf á tiltekinni sérfræðiþekkingu að halda og þar sem menn vilja komast af stað með hlutina. Þetta er í fullu samræmi við góðar venjur þannig að um það er ekki meira að segja. Ég treysti því að hv. þingmaður fagni því að þarna var vösk manneskja ráðin til verksins.

Það má segja að í einfaldleik sínum felist markmið um kynjaða fjárlagagerð, sem að sjálfsögðu byggja á grundvallarsjónarmiðum um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða, í því að afla tekna og útdeila opinberu fé þannig að það stuðli að jafnrétti kynjanna; í einfaldleik sínum er hugmyndafræðin þannig. En þetta er viðamikið ferli og það varð einfaldlega niðurstaðan að fylgja leiðsögn verkefnisstjórnarinnar hvað varðar aðferðafræðina og innleiðingu hennar í áföngum. Tillagan var sú að reyna að velja í öllum ráðuneytum tilraunaverkefni þannig að öll ráðuneyti byrjuðu hjá sér. Það komu upp hugmyndir á einu stigi um að velja kannski eitt ráðuneyti sem einbeitti sér sérstaklega að þessu en það hefði haft þann galla að önnur ráðuneyti hefðu þá ekki lagt af stað samtímis.

Það er rétt að fram komi að heilbrigðisráðuneytið og hæstv. heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, lýsti sig áhugasama um að heilbrigðisráðuneytið yrði í fararbroddi í þessum efnum. En niðurstaðan varð að fylgja tillögum verkefnisstjórnarinnar og við höfum algerlega orðið við þeim hugmyndum sem þar komu fram, þar á meðal að setja nokkra fjármuni aukalega inn í þetta á þessu ári sem þrjú ráðuneyti sameinast um að leggja af mörkum til að hægt sé að veita faglega ráðgjöf og aðstoð og koma verkefninu áfram.

Ég vona að við stígum næsta skref í þessu ferli í fjárlagagerðinni á þessu ári og að þess muni sjá stað í fjárlögum ársins 2011. Ég þykist vita (Forseti hringir.) að grannt verði fylgst með því héðan úr salnum hvernig það skilar sér.