138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

samningsmarkmið varðandi landbúnað í viðræðum við Evrópusambandið.

565. mál
[15:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina um aðildarviðræður að Evrópusambandinu og kröfur þar að lútandi af hálfu Íslendinga.

Spurt er:

„Kemur til álita að fallast á að hverfa frá núgildandi landbúnaðarstefnu, heimila innflutning á lifandi dýrum og aflétta tollvernd gagnvart landbúnaðarafurðum, samanber álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 24. febrúar sl.?“

Áður en ég svara fyrirspurninni vil ég vekja athygli á hvar í samningaferlinu við erum stödd. Eins og kom fram felur álit framkvæmdastjórnarinnar frá 24. febrúar sl., sem háttvirtur þingmaður vitnar til, í sér það mat framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að Ísland uppfylli skilyrði til að teknar verði upp samningaviðræður um aðild. Formleg ákvörðun ráðherraráðsins hefur þó ekki verið tekin. Eftir að hún liggur fyrir fer ákveðinn tími í að greina frekar mismun á löggjöf Íslands og löggjöf ESB um landbúnað áður en formlegar samningaviðræður eða aðildarviðræður hefjast.

Áðurnefnt álit framkvæmdastjórnarinnar á umsókn Íslands að Evrópusambandinu frá 16. júlí 2009 er mikil vísbending um þá stefnubreytingu í landbúnaði sem Evrópusambandið mun krefja okkur um.

Ég vil, með leyfi forseta, nefna að í niðurstöðum álitsins um landbúnað segir m.a.:

„Íslensk landbúnaðarstefna samræmist ekki lögum og reglum ESB og breytinga er þörf áður en til aðildar kemur. Þetta á sérstaklega við um stuðningsaðgerðir sem margar hverjar brjóta í bága við reglur ESB um samkeppni og ríkisaðstoð. Breyta þarf landbúnaðarstefnunni, m.a. með því að aftengja stuðningsaðgerðir frá framleiðslu.“

Enn fremur segir: „Ísland þarf að styrkja stjórnsýsluna.“ — Þetta segir okkur líka m.a. að auk þess að taka upp aðra landbúnaðarstefnu munu stjórnsýsluverkefni á sviði landbúnaðarmála aukast með viðeigandi fjölgun starfa hjá ráðuneyti og undirstofnunum og menn hafa verið að tala þar um meira en hundrað manns.

Rétt er að minna strax á þær girðingar sem Bændasamtök Íslands hafa krafist, sem eru eftirfarandi með leyfi forseta:

Í fyrsta lagi kemur svæðaskipting landsins með tilliti til landbúnaðar ekki til álita og tekið verði sérstakt tillit til veðuraðstæðna og ríkra krafna til aðbúnaðar búfjár og vinnuverndar.

Í öðru lagi verði áfram byggt á 13. gr. EES-samnings um rétt Íslands til verndar heilsu manna og dýra.

Í þriðja lagi hafi Ísland og íslensk stjórnvöld fullt frelsi frá reglum og stefnu ESB til stuðnings landbúnaði og innlendum úrvinnsluiðnaði.

Í fjórða lagi verði áfram heimilt að leggja tolla á búvöru frá löndum ESB.

Í fimmta lagi verði félagsleg staða bænda tryggð og afkoma þeirra.

Þá verði sérstakur markaðsforgangur sóknarafurða tryggður, t.d. ýmiss grænmetis, kornafurða og ávaxta sem framleiða má hér heima, þar sem nýttir eru endurnýjanlegir orkugjafar, gnægð vatns og/eða ræktarlands svo og ábyrg nýting bújarða.

Hliðstæða umfjöllun um hagsmuni íslensks landbúnaðar má einnig finna, með leyfi forseta, í nefndaráliti á þskj. 249, 38. mál, frá 2009, um tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Í nefndarálitinu er lögð áhersla á þýðingu landbúnaðar fyrir matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar. Enn fremur segir að ljóst sé að íslenskur landbúnaður í heild sinni sé lykillinn að fæðuöryggi landsins. Þannig er lögð áhersla á að ekki dragi úr framleiðslu á landbúnaðarafurðum á Íslandi við hugsanlega ESB-aðild.

Texti álitsins felur beint í sér m.a. að eftirfarandi samningsskilyrði verði sett að lágmarki af hálfu Íslands. Þar er tíundað, frú forseti:

Að tryggja með varanlegum undanþágum, sem heimila sértækan stuðning við íslenskan landbúnað, að samkeppni frá ríkjum ESB víki ekki íslenskri landbúnaðarframleiðslu til hliðar.

Að tekið sé fram að tryggja þurfi að stuðningi við landbúnað verði sem minnst raskað þótt ljóst sé að ákveðin breyting í uppbyggingu styrkjakerfis muni eiga sér stað með aðild að Evrópusambandinu.

Meiri hlutinn áréttar að hefðbundinn landbúnaður á Íslandi og hið íslenska fjölskyldubú er hluti af menningu og sögu landsins sem þörf er á að varðveita. Því þarf að verja þær greinar sem slíkur landbúnaður byggist á, svo sem mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt.

Að takmarka rétt þeirra sem ekki hafa lögheimili og fasta búsetu á landinu til þess að eignast fasteignir hér á landi með tilliti til þess að viðhalda búsetu í sveitum með hliðsjón af sérreglum sem veittar hafa verið t.d. á Möltu og í Danmörku.

Að krefjast þess að heilbrigðisundanþágum fyrir Ísland verði haldið áfram óbreyttum.

Þegar aðildarumsókn Íslands var samþykkt á Alþingi 16. júlí 2009 lá að sjálfsögðu ekki fyrir álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 24. febrúar um nauðsynlega stefnubreytingu á íslenskri landbúnaðarlöggjöf til að nálgast hugsanlega aðild. Nú liggur þetta álit fyrir og eru línurnar farnar að skýrast í þeim efnum, frú forseti, og ég kem að því enn frekar í seinni ræðu minni.