138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

samningsmarkmið varðandi landbúnað í viðræðum við Evrópusambandið.

565. mál
[15:44]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Mig langaði að beina spurningu til hæstv. landbúnaðarráðherra: Í ljósi þess að nú liggur fyrir að verið er að fara í gang með aðlögun að regluverki Evrópusambandsins — það kemur fram í gögnum frá utanríkismálanefnd að samningaferlinu hefur verið breytt í þá veru að það þarf að aðlaga töluverðan hluta af regluverkinu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, langar mig að spyrja að því hvort einhverjar kröfur hafi verið gerðar á það að einhverjar slíkar aðlögunaraðgerðir fari fram á sviði landbúnaðarmála áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur. Ef svo er, hvort hægt sé að treysta því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi ekki fram nokkrar breytingar fyrir þingið, frumvörp eða annað sem þessu tengjast, fyrr en að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslu.