138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

samningsmarkmið varðandi landbúnað í viðræðum við Evrópusambandið.

565. mál
[15:47]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi umræða sé algerlega ótímabær. Samningaviðræður við Evrópusambandið hafa ekki hafist og Evrópusambandið hefur ekki samþykkt að þær væru hafnar en það verður þó vonandi gert í næsta mánuði eða þarnæsta.

Það hefur komið skýrt fram á Alþingi að það þarf að verja byggðir í sveitum landsins. Hins vegar er mjög líklegt að það komi til að styrkjauppbyggingu í landinu verði breytt og sannast að segja held ég að það sé hið besta mál vegna þess að sú styrkjauppbygging sem er við landbúnaðinn í landinu leiðir ekki til þess að hagkvæmni sé höfð að leiðarljósi. Ég held að það sé hið besta mál eins og reyndar það að skoða margt annað, sérstaklega landbúnaðinn og önnur svið, byggðastefnu og annað, sem mun leiða af því þegar við hefjum samningaviðræður við Evrópusambandið.