138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

þingsályktunartillaga um ákæru á hendur mótmælendum.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Í hliðarherbergi liggur frammi tillaga til þingsályktunar sem nú er búið að dreifa á þinginu um ákæru á hendur níu mótmælendum fyrir árás á Alþingi. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa þeirri skoðun minni við hæstv. forseta þingsins að þetta mál er ekki þingtækt. Fyrir utan efnisatriðin, fyrir utan það hversu fráleitt það er að héðan af þinginu berist þau skilaboð til samfélagsins að menn treysti ekki ákæruvaldinu í landinu, að menn hafi einhverjar efasemdir um að dómstólarnir séu bærir til þess að útkljá þau mál sem upp koma, er hér efnislega á ferðinni mál sem augljóslega er ekki þingtækt — eða dytti einhverjum þingmanni í hug að við gætum afgreitt þingsályktunartillögu um að fela skrifstofustjóra einhvers ráðuneytisins að grípa til einhverra aðgerða? Það gengur augljóslega ekki, ekki frekar en í þessu máli, að Alþingi álykti um (Forseti hringir.) að skrifstofustjóra þingsins sé gert að grípa til einhverra ráðstafana.

Ég skora á hæstv. forseta að úrskurða að málið sé ekki þingtækt.