138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

þingsályktunartillaga um ákæru á hendur mótmælendum.

[10:35]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er líka svolítið hissa á þessari tillögu sem er komin fram. Ég treysti mér ekki til að kveða upp úr um hvort hún sé þingtæk eða ekki, en þarna er verið að falast eftir því að þingið hlutist til um dómsmál sem er komið í ferli. Mér finnst það mjög hæpið. Við eigum ekki að skipa dómstólunum fyrir. Það er fjallað um skrifstofustjóra Alþingis en sá einstaklingur hefur ekki farið með þetta mál fyrir dómstóla. Það er ríkissaksóknari. Hvernig á hann að hlutast til um þetta? Hann bað bara um að fram færi rannsókn á þessu máli af því að hér slösuðust þingverðir og gætu hugsanlega átt rétt á bótum o.s.frv. Mér finnst þetta mjög sérstakt mál og tel að við þurfum að ræða í forsætisnefndinni um hvort hægt sé að fjalla um tillögu þar sem beðið er um að Alþingi hlutist sérstaklega til um dómsvaldið. Mér finnst þetta mjög sérstakt (Forseti hringir.) og tel að þetta þurfi að skoða betur.