138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

þingsályktunartillaga um ákæru á hendur mótmælendum.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að ég hefði ekki fært nein sérstök rök fyrir máli mínu en mér finnst málið bera það með sér að það er ekki þingtækt. Í fyrsta lagi ef beina á einhverjum tilmælum til þingsins um að þingið ætli að álykta um eitthvað sem snertir það sjálft situr fyrir aftan mig hæstv. forseti þingsins og menn ættu þá að beina tilmælum til hans, ekki til skrifstofustjóra þingsins, ekki frekar en að við sendum skrifstofustjórum ráðuneytanna beiðni eða ályktun um það hvað einstök ráðuneyti eiga að gera. Við sendum viðkomandi tilmæli til ráðherranna sjálfra.

Þar fyrir utan er um að ræða íhlutun í framkvæmdarvaldsaðgerð. Það er hlutverk þingsins að setja rammann og reglurnar og framkvæmdarvaldið á síðan að fylgja þeim reglum. Ekkert liggur fyrir í þessu máli annað en að menn fylgi þeim reglum sem settar hafa verið á þinginu. Þess vegna er þingsályktunartillagan efnislega (Forseti hringir.) algjörlega tilefnislaus.