138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

þingsályktunartillaga um ákæru á hendur mótmælendum.

[10:46]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé brýnt að hið háa Alþingi fari ekki inn á verksvið annarra valdstofnana samfélagsins, dómsvaldsins og/eða framkvæmdarvaldsins. Þrískipting ríkisvaldsins er grundvöllur réttarríkis og lýðræðissamfélags.

Ég rifja hér upp að einu sinni var skrifað bréf til Hæstaréttar af forseta Alþingis og allt fór á annan endann í umræðum á hinu háa Alþingi. Við verðum og þurfum og eigum að treysta því að dómsvaldið sé fært um að vinna sitt verk, ríkissaksóknari og aðrir, að Alþingi sé fært um að vinna sitt verk og að framkvæmdarvaldið sé fært um að vinna sitt verk undir aðhaldi Alþingis. Alþingi Íslendinga getur ekki beðið fulltrúa dómsvaldsins um að gera eitthvað á einn eða annan veg, dómarar verða að komast að sjálfstæðri niðurstöðu.