138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

þingsályktunartillaga um ákæru á hendur mótmælendum.

[10:48]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mjög sérstakt mál, hvort þingsályktunartillaga sé í lagi vegna þess að það er verið að reyna að hafa inngrip í dómsmál.

Mig langar að viðra aðeins sjónarmið mitt og Hreyfingarinnar í þessu máli. Hér er um að ræða pólitískt dómsmál fyrst og fremst, pólitísk réttarhöld. Af hálfu yfirvaldsins er verið að reyna að ná fram hefndum gagnvart mótmælendum (Gripið fram í: Vinstri grænir?) sem stöðvuðu hér þinghald þann 20. janúar 2009 að undangengnum margra mánaða mótmælum. Þúsundir manna mótmæltu hér fyrir utan. Þeir eiga allir að mæta í dómsal, þar á meðal ég.

Það sem mundi leysa svona mál í framtíðinni, frú forseti, væri ákvæði um að hluti þjóðarinnar gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál. Þá mundi ekki aftur koma til svona átaka og mótmæla. Þá gæti farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla (Forseti hringir.) sem almenningur krefðist um það hvort ríkisstjórnin ætti að sitja áfram (Forseti hringir.) og málið væri leyst til frambúðar. Frumvarp forsætisráðherra (Forseti hringir.) sem fyrir liggur í allsherjarnefnd gerir hins vegar ekki ráð fyrir því þannig að það er enginn vilji til þess (Forseti hringir.) af hálfu Alþingis að vinna málið betur (Forseti hringir.) en með áframhaldandi mótmælum og óeirðum. Það er skammarlegt.