138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

þingsályktunartillaga um ákæru á hendur mótmælendum.

[10:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það liggur í orðum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að Alþingi eigi bara að velja þau mál sem eru því þóknanleg að ákæruvaldið fari fram með. Það liggur bara í því, það er í lagi að fara fram með hluta af þessu en annað ekki. Hvers lags inngrip og hvers lags umræða er þetta eiginlega á löggjafarsamkundunni? (BirgJ: Mundirðu ekki segja …?)

Ég ítreka gagnrýni mína á hv. þingmenn Vinstri grænna varðandi þau mótmæli sem hér voru í gangi. Menn verða að kannast við það sem þeir sögðu og hvernig þeir létu á þessum tíma. Mikið ábyrgðarleysi fólst í þeim yfirlýsingum sem hér féllu á göngunum í hita leiksins. Það er engin afsökun fyrir þingmenn að tala eins og var talað. Aðspurð sagði hæstv. heilbrigðisráðherra á þeim tíma að henni fyndist í lagi að þessu fólki yrði hleypt hér inn og það bryti hér allt og bramlaði, þetta væru hvort eð er dauðir hlutir. Í því felst virðingin fyrir því starfi sem hér fer fram. (Forseti hringir.)

Menn verða að kannast við þetta, það þýðir ekki að bakka út úr þessu núna.