138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna. Það er mikilvæg nýbreytni í þingstörfunum að við skulum nú vera komin með það sem reglulegan þátt í þingstörfunum að fá skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál.

Mig langar til að bera upp við hæstv. ráðherra spurningu sem snýr að Evrópusambandsaðildarviðræðunum og mig langar til að fá mat ráðherrans á því hvaða áhrif það hafi á viðræðuferlið að nú hafa ýmsir þingmenn sem studdu viðræður á sínum tíma, þ.e. greiddu atkvæði með því að viðræður skyldu fara af stað, stigið fram og sagt sig vera mjög eindregna gegn því að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Spurningin er eiginlega þessi: Er til staðar nægileg pólitísk forusta til að leiða samninga til lykta? Hefur þessi ríkisstjórn burði til að leiða málið til lykta? Hefur ráðherrann ekki áhyggjur af því hver pólitísk staða gagnvart Evrópusambandsaðildarviðræðunum er í reynd á Íslandi í dag?