138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Utanríkisráðherra er ekki áhyggjufullur maður að eðlisfari og það er margt annað sem lýtur að hagsmunum Íslands sem ég hef meiri áhyggjur af að þessu sinni. Ég er þinginu þakklátur fyrir það að á sínum tíma tókst góður meiri hluti með stuðningi fólks úr öllum flokkum sem hér eiga sæti til að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild. Það hefur verið gert. Allt hefur síðan verið eftir bókinni. Ég hef farið mjög nákvæmlega eftir því sem meiri hluti Alþingis fól mér að gera. Vissulega mundi ég fagna því ef öflugur stjórnmálamaður eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson mundi með meira afgerandi hætti taka þátt í því að tosa þessu æki fram. Auðvitað mundi ég fagna því líka ef félagi okkar hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra mundi sjá ljósið og ræða málið á grundvelli raka. Það sem mér hefur þótt vera að þessu er að menn hrapa að niðurstöðu áður en liggur fyrir hver samningurinn er.