138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa skýrslu. Það er víða hægt að grípa niður í henni og koma með athugasemdir en þar sem ég hef bara mínútu gefst mér ekki færi á að fara í mörg atriði.

Það sem mig langar að beina til hæstv. utanríkisráðherra er að það kemur fram í gögnum frá utanríkisráðuneytinu, m.a. í þeirri skýrslu sem hann leggur hér fram, að það þurfi að ráðast í ákveðna aðlögun á lagaumhverfi Íslands, bæði áður en samningakaflar eru opnaðir og eins áður en þeim er lokað. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telur það lýðræðislegt að ráðast í þetta með þessum hætti, að hér fari fram aðlögun á lagaverkinu áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram á sama tíma og 70% þjóðarinnar eru mótfallin aðild. Það var af mikilli lýðræðisást sem þessi umsókn var lögð fram þannig að þjóðin gæti sagt skoðun sína.