138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna yfirlýsingum hæstv. utanríkisráðherra því að nú hefur hann staðfest fyrir Alþingi Íslendinga að hér er í gangi aðlögunarferli að Evrópusambandinu. Hann hefur staðfest það sem kemur fram í gögnum frá utanríkisráðuneytinu að hér er um aðlögunarferli að ræða sem kostar 6 milljarða fyrir skattgreiðendur. Það er ekkert lýðræðislegt við það þegar 60–70% þjóðarinnar eru mótfallin aðild að við séum á fullu við að laga íslenskt regluverk og íslenskt samfélag að Evrópusambandinu. Það er gríðarlega kostnaðarsamt ferli og þjóðin er algjörlega á móti því.