138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur margt athyglisvert komið hér fram og mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra aðeins nánar út í þennan nettóhagnað sem ráðherrann telur að sé af því aðildarferli sem við erum í.

Hefur verið tekið mið af þeim viðskiptasamböndum sem hafa glatast vegna þessarar umsóknar, og þá er ég aðallega að tala um fríverslunarsamning við Kína og þau tækifæri sem þar eru og jafnframt okkar svipuðu aðstöðu varðandi Kanada? Hefur verið tekið mið af þessum töpuðu gjaldeyristekjum við útreikninga hæstv. ráðherra?

Að lokum langar mig að koma til varnar fyrir hagsýnar húsmæður þessa lands. Hagsýn húsmóðir mundi aldrei nokkurn tíma sækja um aðild að kvenfélaginu sem kostaði 7 milljarða kr. ef hún vissi að það væru eintóm útgjöld í þessu, vissi að það væri ekki raunverulegur vilji hjá henni að ganga inn í kvenfélagið. Þess vegna er þetta einfaldlega sóun á tíma og peningum og í þessu tilfelli sóun á skattfé almennings, ríkisins sem hefur ekki efni á að taka þátt í svona vitleysu.