138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa yfir áhyggjum mínum af því að hæstv. utanríkisráðherra Íslands skuli sífellt vera að bera okkur saman við Möltu. Malta var ekki í EES áður en gengið var inn í Evrópusambandið þannig að það er mjög ólíku saman að jafna og það er ekkert sambærilegt við þetta. Jafnframt er flokkur hv. þingmanns sífellt að bera saman sjávarútveginn á Möltu og sjávarútveginn á Íslandi. Þetta eru algjörlega ósambærileg mál. Sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnugrein hér á Íslandi, hann er það ekki á Möltu

Mig langar að segja það, frú forseti, að þessi orðræða hæstv. utanríkisráðherra vekur mér enn meiri áhyggjur af því á hvaða vegferð við erum, að þessum málum sé stjórnað af hálfu aðila sem virðast hafa svo blinda trú á Evrópusambandinu að þeir sjá ekki hagsmuni Íslands fyrir þeim stóra skógi.